145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

skert póstþjónusta í dreifbýli.

[10:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Talsmönnum hinna dreifðu byggða fer fækkandi og þá veitir ekki af fyrir okkur hin að standa í lappirnar með að vera talsmenn þeirra hér á Alþingi. Það eru einmitt sveitarfélög sem hafa dreifðar byggðir innan sinna marka sem eru að senda okkur þingmönnum bréf og lýsa áhyggjum sínum og óánægju með að enn eina ferðina eigi að bjóða upp á annars flokks þjónustu hjá ríkisfyrirtæki, Íslandspósti, á þessum svæðum sem eru mjög veik fyrir. Þetta ýtir undir að búsetuskilyrði á þessum svæðum veikjast.

Samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og Fjórðungssamband Vestfjarða, sem hefur komið að þessu máli, er lítið sem ekkert. Á þeim vettvangi töldu menn að þetta væri ekki í bígerð. En síðan er þessu skellt svona fram, það er opnað á þetta með reglugerð, og Íslandspóstur er búinn að segja upp (Forseti hringir.) verktökum í landpóstsþjónustu og er að fara að keyra á þetta plan á fullri ferð. Ég lýsi mikilli óánægju með það skilningsleysi á þessu máli sem hér kemur fram.