145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Því verður tæpast á móti mælt að við Íslendingar höfum vítin til að varast í sambandi við einkavæðingu banka. Þeir sem eru orðnir eitthvað ryðgaðir í þeim efnum gerðu rétt í að draga fram skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og lesa, ef ég man rétt, t.d. 6. bindið þar um.

Í öðru lagi er rétt að minna á að það var ekki ríkið sem eigandi að bönkum sem setti bankakerfið á hliðina og nærri landið allt með. Nei, það voru einkaaðilar. Þeim tókst á aðeins sex árum að rústa bankakerfinu sem þeir höfðu fengið í hendur.

Ef við horfum til stöðunnar nú virðist sú undarlega staða blasa við að mestu hagsmunir ríkisins séu fólgnir í því að sá eini af stóru bönkunum þremur sem ríkið á ekki eða kemur til með að eiga, Arion banki, seljist. Við það eru bundnar háar greiðslur stöðugleikaframlags með veði í bankanum að sá banki seljist á næstu árum. Þegar horft er þar af leiðandi til markaðsaðstæðna má halda því fram með gildum rökum að ríkið vinni gegn sjálfu sér og eigin hagsmunum að hrófla við eignarhlut sínum í öðrum bönkum á meðan. Markaðurinn hér og fjárfestingargetan, jafnvel þótt lífeyrissjóðirnir sýni þessu áhuga, er ekki slík að það sé líklegt að margir stórir bankar seljist í heilu lagi eða að verulegu leyti án þess að veittur verði verulegur afsláttur. Margt fleira færir rök fyrir því að það sé óskynsamlegt og í öllu falli ótímabært að hefjast nú handa með eitthvert brölt varðandi eignarhlut í Landsbankanum.

Þó að heilmikil umbreyting hafi orðið á löggjöf um fjármálamarkað þá er þeirri vinnu ekki lokið. Hæstv. fjármálaráðherra veit til dæmis vel að það er ekki komin endanleg niðurstaða um það hvernig farið verður með framtíðarlöggjöf um slit fjármálafyrirtækja, hvort það verður af aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingabankastarfsemi, hverjar verða endanlegar eiginfjárkröfur eftir að Basel III-reglurnar hafa verið að fullu innleiddar. Það vantar framtíðarstefnumótun. (Forseti hringir.) Ef ríkið selur eitthvað af hlut sínum í Landsbankanum, hvað ætlar það að eiga til framtíðar litið stóran eignarhlut? Má vísa (Forseti hringir.) til fordæma í Noregi í þeim efnum o.s.frv. (Forseti hringir.)

Niðurstaðan er að þetta brölt er ótímabært.