145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil vara við því að of geyst sé farið í sölu á eignarhlutum í bönkunum og tel að nú sé mikilvægt að vega stöðuna vandlega og meta. Það stendur hins vegar í stöðuskýrslu Bankasýslunnar um fyrirhugaða sölu á Landsbankanum að stofnunin telji nú, eftir mat á efnahagslegum viðmiðum um efnahagslegan stöðugleika, verðmat á hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum og mat á fjárhagslegu bolmagni mögulegra kaupenda og stöðu Landsbankans, að rétt sé að hefja sölumeðferð á eignarhlutum í bankanum og að ef ákvörðun ráðherra um sölumeðferð liggi fyrir vorið 2016 verði unnt að ljúka sölu á síðari hluta ársins í samræmi við áherslur ráðherra í fjárlögum fyrir árið 2016.

Gylfi Magnússon, doktor í hagfræði og fyrrverandi viðskiptaráðherra, segir í nýlegu erindi að svara þurfi áleitnum spurningum áður en hugsanleg sala fer fram. Huga þurfi að hlutverki ríkisins sem er annars vegar eigandi og hugsanlega seljandi banka og hins vegar mótar það regluverk fjármálakerfisins og hefur eftirlit með því. Gylfi spyr hvaða krafa verði gerð um eigið fé til íslenskra banka. Verður gerð krafa um dreift eignarhald á banka? Verður gerð krafa um frekari aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi? Að auki þurfi helst að svara spurningum um framtíðargjaldmiðil og hversu stórt bankakerfið eigi að vera áður en sala eignarhluta fari fram.

Alþingi hefur samþykkt rannsókn á einkavæðingu bankanna en ekki hrint henni í framkvæmd. Niðurstöðum rannsóknarinnar er ætlað að auðvelda mótun viðmiða fyrir sölu eignarhluta ef arðbært þyki að ríkið selji eignarhluti sína í bönkunum. Við ættum að gefa okkur tíma til að svara verðugum spurningum Gylfa Magnússonar, ákveða hvernig við viljum sjá bankakerfið okkar til framtíðar og draga lærdóm af fyrri sölu áður en rokið er til. Það liggur ekkert á.