145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni láðist að geta sölu banka sem ekki er í eigu ríkisins, á eignarhlutum sem mjög hafa sætt gagnrýni að undanförnu, svo sem Arion banka í Símanum o.s.frv. Það er rétt, við borgum háar fjárhæðir í vexti og þá er einmitt gott að eiga mjólkurkýr eins og Landsbankann sem hefur verið að greiða tugi milljarða í arð á ári hverju í ríkissjóð. Það er hægt að nota þá peninga til að borga vexti og eiga bankann áfram, það er nú kosturinn við það að eiga arðbær fyrirtæki, þau gefa af sér ár eftir ár, en menn selja þau bara einu sinni.

Reyndar held ég að þetta mál allt saman sé ótímabært ekki síst vegna þess að stjórnarflokkarnir þurfa greinilega að byrja á því að tala saman áður en þeir fara að bera það inn í sali þingsins að þeir ætli að fara að selja banka. Eða gera menn ekkert með það þegar formaður efnahags- og viðskiptanefndar flytur jafn sterk rök og hann flutti hér gegn því að þetta væri skynsamleg ráðstöfun? Hvernig er ástandið á stjórnarheimilinu í þessum efnum? Ég er sammála hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að rökin eru öll þeim megin að það er ótímabært og óskynsamlegt að leggja í þennan leiðangur við þessar aðstæður. Stjórnarliðar ættu að byrja á því að reyna að koma sér saman um einhvern skapaðan hlut í þessum efnum.

Varðandi Landsbankann þá er hann stærsti banki landsins og hann er eina fjármálastofnunin á mjög stórum landsvæðum vegna þess að hann að uppistöðu til hefur tekið yfir net sparisjóðanna. Ég tel hugmyndir um samfélagsbanka eða þjóðbanka af einhverju tagi í sambandi við Landsbankann mjög áleitnar í því samhengi. Með því væri til dæmis hægt að leggja skyldur á herðar bankans að veita sómasamlega þjónustu á þeim stóru landsvæðum þar sem hann er einn um að vera með bankastarfsemi. Eigandinn, ríkið, gæti þar af leiðandi í eigendastefnu sinni fallist á það og væri sáttur við það, þótt það kæmi eitthvað örlítið niður á arðsemi bankans, gegn því að hann sinnti slíkum samfélagslegum og byggðapólitískum skyldum.

Að lokum. Er ekki betra að ríkið eigi banka og við sjáum til þess að þeir séu ábyrgt og sómasamlega reknir (Forseti hringir.) og fari ekki á hausinn frekar en að láta þá frá sér og bera ábyrgð á þeim samt ef það á að verða niðurstaðan? Er þá ekki betra að hafa þetta beint og milliliðalaust, ríkið sjái um að fjármálakerfið sé í lagi frekar en að (Forseti hringir.) henda því með reglubundnu millibili í hendur einkaaðila sem eins og reynslan sýnir geta á undraskjótum tíma sett það á hausinn en ríkið ber ábyrgðina samt?