145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur verið. Ég held að mikilvægasta verkefni okkar sé að ákveða hvað við viljum að fjármálakerfið geri og þar með talið allir bankar þannig að við drögum úr áhættusækni í kerfinu. Lausnin getur ekki verið sú að ríkið eigi einn banka og ákveði að tapa peningum á honum í samkeppni við aðra banka. Við þurfum að ákveða hvað allt fjármálakerfið á að gera og passa að hanna það þannig að það falli ekki aftur ofan á almenning í landinu.

Í skýrslu Bankasýslunnar, sem nú liggur fyrir, er sagt skýrum orðum að forsenda þess að hægt sé að selja þennan hlut sem nú er heimild til að selja sé að mörkuð sé stefna um framtíðareignarhald Landsbankans. Hversu langt á að selja hann niður? Ætlar ríkið að verða meirihlutaeigandi? Ætlar það að vera hlutaeigandi? Ætlar það að selja sig alveg út? Um þetta þarf að taka ákvörðun.

Það er ekki hægt að ganga fram eins og hæstv. fjármálaráðherra gerir núna. Við lesum um það í blöðum að verið er að auglýsa eftir ráðgjöfum við sölu á þessum hlut á sama tíma og ríkisstjórnin er ekki búin að ákveða hvort eða hvernig eigi að haga eignarhaldi ríkisins í Landsbankanum til langframa.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson er engin geimvera sem hægt er að horfa í gegnum og láta eins og hann sé ekki hérna. Hann er formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, fyrsti talsmaður Framsóknarflokksins í þessari umræðu. Ég þekki satt að segja engan ráðherra Framsóknarflokksins í þessari ríkisstjórn sem segir með skýrum hætti að hann vilji selja Landsbankann.

Heimavinnan er óunnin af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Ef hann veður af stað með það að ráða ráðgjafa til að selja þennan hlut þvert á faglegar ráðleggingar Bankasýslunnar, þá er hann að falla á fyrsta prófi í fagmennsku. Hann þarf að ákveða fyrst hvernig ríkisstjórnin ætlar að haga eignarhaldi Landsbankans til framtíðar, hver vilji þessara flokka sé. Það er ekkert hægt að vera sammála mér um það, hann verður að vera sammála samstarfsflokknum í sinni eigin ríkisstjórn um það.