145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

afstaða stjórnarliða til sölu Landsbankans.

[11:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held nú, í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað, og þeirra upplýsinga sem komið hafa fram frá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, um afstöðu hans sem talsmanns Framsóknarflokksins í þessari umræðu, að sú staða sé uppi að óvíst sé að þingmeirihluti sé fyrir því að selja Landsbankann. Við erum með í höndunum skýrslu frá Bankasýslu ríkisins sem segir að ekki eigi að byrja á sölunni nema menn hafi gert það upp við sig hvernig þeir ætli að ljúka henni, hvað ríkið ætli að eiga til langframa mikinn hluta.

Það er verið að auglýsa eftir ráðgjöfum í dag. Hæstv. fjármálaráðherra gerir lítið úr því og segir að þeir séu að fara að ráðleggja ríkisstjórninni. Hér verður að taka hlutina í réttri röð. Er verið að ráða ráðgjafa til að ráðleggja ríkisstjórninni hversu stóran hlut hún á að eiga í Landsbankanum? Nei, er ekki verið að ráða ráðgjafa til að ráðleggja um sölu bankans? Það er allt annað mál. Það er óeðlilegt að hefjast handa við þetta ferli þvert á faglegar ráðleggingar þeirrar stofnunar (Forseti hringir.) sem að lögum á að fara með málið og ráðleggur okkur og segir að það sé fráleitt að hefja söluferlið nema stefnumörkun ríkisstjórnarinnar liggi fyrir.


Tengd mál