145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

afstaða stjórnarliða til sölu Landsbankans.

[11:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé samt ekki misnotkun á þingsköpum að ræða þá pólitísku stöðu sem hefur afhjúpast hér í þessari umræðu. Djúpstæður ágreiningur er milli stjórnarflokkanna um það hvert halda skuli í þessu máli. Þá er rétt að benda á að þetta eru heimildir en ekki skylduákvæði. Það er heimilt að hefja sölu í bönkunum en það er ekki skylt. Að sjálfsögðu geta menn endurskoðað það á hvaða tímapunkti sem er hvort sú heimild sé nýtt.

Varðandi bókfærslu á áætluðum sölutekjum í bókhald ríkisins þá verður eignin áfram til staðar þannig að það er ekki eins og eitthvað sé að fara í burtu frá mönnum í þeim efnum þó að það mundi hafa áhrif á áformaða niðurstöðu fjárlaga á árinu 2016.

Ég held að með einhverjum hætti verði að taka þessa stöðu málsins til skoðunar og umræðu hér í þinginu, í þingnefndum eða eftir atvikum hér í salnum, það sé ómögulegt að láta þetta standa svona, nema ef hæstv. fjármálaráðherra er einbeittur í því að setja undir sig hausinn og vaða (Forseti hringir.) áfram, jafnvel þótt hann hafi ekki þingmeirihluta og ekki hinn stjórnarflokkinn með sér í þeim leiðangri.