145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[12:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fullgildingu stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu. Ísland sóttist eftir því að vera meðal stofnaðila að bankanum í mars sl. í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Að loknum samningaviðræðum sem Ísland tók virkan þátt í voru stofnskjöl bankans formlega undirrituð af stofnaðilum hinn 29. júní 2015 í Peking, þar með töldu Íslandi. Bankinn tók svo formlega til starfa nú í janúar í kjölfar stofnfundar sem haldinn var hinn 16. janúar sl. en fjármálaráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Virðulegi forseti. Innviðafjárfestingabanki Asíu er fjölþjóðlegur þróunarbanki sem mun styðja við aðgerðir til að efla innviði í Asíu og þannig stuðla að hagvexti og sjálfbærri efnahagslegri og félagslegri þróun í álfunni. Verður þar sérstaklega litið til þarfa fátækustu ríkjanna á svæðinu. Mikil þörf er á langtímafjármögnun til frekari uppbyggingar innviða, svo sem samgöngukerfa, orkukerfa og fjarskiptakerfa, og er almennt talið að viðfangsefnið sé af slíkri stærðargráðu að bankar eins og Alþjóðabankinn og Þróunarbanki Asíu hafi ekki nægjanlegt bolmagn einir og sér til að ráða við slík verkefni. Að því sögðu er bankinn ekki stofnaður til höfuðs öðrum fjölþjóðlegum þróunarbönkum. Starfsemi bankans mun þvert á móti styðja við starfsemi þeirra sem þegar sinna uppbyggingu innviða í þessum heimshluta. Gert er ráð fyrir nánu samstarfi við aðrar fjölþjóðlegar og tvíhliða þróunarsamvinnustofnanir til að taka á fyrirliggjandi áskorunum. Starfsemi bankans mun þannig stuðla að því að nýsamþykkt heimsmarkmið um sjálfbæra þróun náist í ríkjum Asíu. Má þar helst horfa til 9. heimsmarkmiðsins að byggja upp sterka innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu fyrir alla og hlúa að nýsköpun. Auk þess getur bankinn að mínu mati gegnt mikilvægu hlutverki í að tryggja aðgang að öruggri og sjálfbærri orku í samræmi við heimsmarkmið nr. 7.

Virðulegi forseti. Aðild Íslands að bankanum mun styrkja enn frekar góð samskipti Íslands og Asíuríkja og styðja við nýja vaxtarbrodda á viðskiptasviðinu. Það getur þýtt aukin tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf í Asíu auk þess að gera Ísland sýnilegra á þessu stærsta vaxtarsvæði heimsins. Stofnaðild að bankanum færir Íslandi einnig ákveðið forskot þar sem hún felur í sér beina aðkomu að samningaviðræðum um allan stofnanalega og lagalegan ramma bankans, rekstur hans og forgangssvið og tryggir þannig eins og kostur er að tekið sé tillit til íslenskra hagsmuna strax í byrjun. Heildarstofnfé bankans mun nema 100 milljörðum bandaríkjadala og nemur heildarskuldbinding Íslands um 17,6 millj. dala eða 0,0179% af stofnfé. Það samsvarar um 2,3 milljörðum íslenskra kr. Atkvæðavægi Íslands verður þó mun meira sem stofnaðila eða ríflega fimmtánfalt miðað við stofnfjárhlutinn. Stærsti hluti skuldbindingarinnar verður svokallað innkallanlegt stofnfé en eingöngu fimmtungur stofnfjárins verður greiddur til bankans í fimm jöfnum greiðslum á komandi árum. Hefur fjármála- og efnahagsráðherra þegar fengið heimild Alþingis til að takast á hendur umrædda heildarskuldbindingu af hálfu Íslands samkvæmt fjáraukalögum 2015. Í fjárlögum fyrir árið 2016 var einnig veitt heimild fyrir greiðslu á fyrstu innborguninni. Ég vil taka það fram að þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC, mun á næstu mánuðum skera úr um hvort stofnfjárframlag til bankans muni teljast að fullu til opinberrar þróunaraðstoðar, ODA. Er talið líklegt að svo verði, en mörg Evrópuríki hafa talað fyrir því máli.

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í athugasemdum við þingsályktunartillöguna mun sambærilegt fyrirkomulag verða á stjórnun bankans og öðrum alþjóðlegum fjármálastofnunum. Æðsta stjórn bankans mun verða bankaráð sem verður skipað fulltrúum aðildarríkja. Bankaráðið mun kjósa stjórn bankans ásamt því að kjósa forseta hans. Þá munu aðildarríkin mynda svokölluð kjördæmi sem tilnefna aðalfulltrúa og varafulltrúa í stjórn bankans. Kjördæmin verða tólf talsins, níu innan Asíu og þrjú utan Asíu. Fyrirséð er að Ísland mun tilheyra kjördæmi með öðrum ríkjum á Norðurlöndum, að undanskildu Finnlandi, auk Bretlands, Póllands og Sviss. Ísland mun í gegnum kjördæmið eiga greiða leið að virkri þátttöku í stjórnarstarfi bankans og getur þannig fylgst með framgangi verkefna og árangri með kerfisbundnum hætti. Þá mun Ísland eiga varamann í stjórn árin 2022–2024 í samræmi við innra skipulag kjördæmisins og með því geta haft bein áhrif á störf bankans til framtíðar. Reynsla okkar af Alþjóðabankanum er með svipuðum hætti og er góð.

Virðulegi forseti. Þróun síðustu ára og framtíðarhorfur sýna æ vaxandi mikilvægi í Asíu í hinu alþjóðlega samhengi. Aðild að Innviðafjárfestingabanka Asíu mun fela í sér tækifæri fyrir Ísland til að hafa áhrif á þá uppbyggingu sem fram undan er. Sem aðili að bankanum frá upphafi getum við talað fyrir hagsmunum hans á mikilvægum tímum í starfi bankans, þegar áherslur og stefnumið verða skilgreind. Með því gætu falist tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf, ekki síst til uppbyggingar hreinnar orku á svæðinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þingsályktunartillögu þessari verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.