145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[12:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má alveg velta fyrir sér hvort það hefði verið heppilegra að hafa einhverja aðra röð á því hvernig málin koma inn í þingið. Þó er alveg ljóst að Alþingi hefur veitt heimildir til þess, í fyrsta lagi á fjáraukalögum og svo fjárlögum, og haft þar af leiðandi tækifæri til að fara ofan í málið. Ástæðan fyrir því að þingsályktunartillagan kemur frekar seint fram er sú að það er einfaldlega búinn að vera hraði á málinu en um leið ákveðinn vandi við að afla upplýsinga og þess háttar. Við vildum gera þetta vandlega og vel og þar af leiðandi erum við í seinna lagi með þingsályktunartillöguna, það er alveg rétt.

Það eru líkur á því að framlög til bankans geti talist til þróunarsamvinnu, það er rétt. Það er þó ekki búið að kveða upp úr um það eins og kom fram í framsögu minni áðan. Verði það þannig að menn telji þessi stofnframlög til þróunarsamvinnu mun það að sjálfsögðu gerast hér líka.

Er bankinn fjárfestingabanki fyrst og fremst eða er hann þróunarbanki? Ég er þeirrar skoðunar að hann sé nær því að vera þróunarbanki en fjárfestingabanki. Það er vegna þess hvernig menn leggja upp með þau verkefni sem hann á að vinna að. Eins og ég nefndi áðan styður hann við heimsmarkmiðin að einhverju leyti, a.m.k. eitt eða tvö þeirra, ef við köfum hreinlega ekki mjög djúpt ofan í hlutina. Það er full þörf á því að styrkja innviði í Asíu, það sjáum við bæði þegar við förum þangað og eins þegar við fylgjumst með fréttum og öðru um ástandið þar. Það vantar verulega upp á raforkukerfið, aðgang fólks að orku o.s.frv. Það er alveg ljóst að það er full þörf fyrir verkefni eins og bankinn ætlar að einbeita sér að. Hann mun hafa svipað fyrirkomulag á starfsemi sinni og Alþjóðabankinn eins og ég nefndi í framsögu minni. Alþjóðabankinn vinnur einmitt að ýmsum verkefnum sem eru þróunarsamvinnutengd og þar höfum við Íslendingar til dæmis lagt mikla áherslu á að endurnýja orku og nýta til dæmis þekkingu á jarðhita.