145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[12:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að ræða þetta mál efnislega en ekki bara í tengslum við almennar fjárheimildir. Ég hef sagt að mér finnst óheppilegt þegar verið er að taka ákvarðanir fyrst og fremst í gegnum fjáraukalög og fjárlög. Sú gagnrýni lýtur fyrst og fremst að forminu.

Mér finnst þessi umræða mjög áhugaverð og hvert markmið okkar er. Ég hef þá tilfinningu að menn sjái markmið með þátttöku í þessum banka með talsvert ólíkum hætti.

Ísland er auðvitað þátttakandi í alþjóðlegum bankastofnunum sem hafa misjafna ferilskrá ef við getum orðað það þannig. Ég er ekki segja að þessi banki muni endilega reynast verri en ýmsir aðrir alþjóðabankar. Það var áhugavert að lesa umfjöllun um aðdragandann að stofnun þessa banka.

Ég spurði áðan hæstv. ráðherra um muninn á þessum banka og Þróunarbanka Asíu sem fyrir er. Hæstv. ráðherra sagði að kannski væri ekki endilega mikill munur á inntaki þessara bankastofnana, viðfangsefnin væru í raun nokkuð svipuð. Ég held að það sé alveg rétt. Hins vegar, miðað við það sem hægt er að lesa af þeim sem hafa fjallað um þessi mál á alþjóðavettvangi, þá virðist stofnun þessa banka fyrst og fremst snúast um að styrkja stöðu Kínverja í hagkerfinu því að Japan hefur haft mjög ráðandi stöðu í Þróunarbanka Asíu. Þarna er verið að styrkja stöðu tiltekinna ríkja. Það sjáum við víðar. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að Bandaríkin hafa verið mjög gagnrýnin á þetta því að þau telja völd sín í gegnum Alþjóðabankann minnka um leið og þessi banki kemur til skjalanna. Við horfum upp á mjög mikla valdabaráttu sem birtist í ítökunum í efnahagskerfi heimsins. Við sjáum annan þróunarbanka, Nýja þróunarbankann, þar sem saman koma Brasilía, Indland, Rússland, Kína og Suður-Afríka. Það er verið að færa talsvert af valdabaráttunni um fjármála- og hagkerfi heimsins í það form þar sem lönd koma saman og taka höndum saman um að styrkja stöðu sína.

Það hefur komið fram að búið er að taka þessa ákvörðun í gegnum fjárheimildir og fjármálaráðherra er búinn að fara til Asíu og skrifa undir. Mér finnst fólk tala hér með talsvert ólíkum hætti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt áherslu á þróunarþáttinn. Mér finnst aðrar raddir hafa heyrst sem lúta fyrst og fremst að meintum tækifærum íslenskra fyrirtækja í gegnum þetta, að þetta snúi fyrst og fremst um hagsmuni Íslands í þessu máli. Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af er það sem lesa má út úr stofnsamningnum, ef við kjósum að líta svo á að þetta sé jákvætt skref í þróunarsamvinnu. Ég vonast til að hv. utanríkismálanefnd muni taka það vel fyrir í umfjöllun sinni um málið. Ég tel það alls ekkert endilega vísa í þá átt. Þó að þar komi fyrir orð á borð við sjálfbærni og félagslega þróun, sem ég nefndi áðan í stuttu andsvari, þá er ekki hægt að lesa úr þessum stofnsamningi neina breytingu, t.d. hvað varðar raunveruleg umhverfismál.

Ég er líka búin að kynna mér aðeins umræðu á þeim vettvangi og menn hafa verulegar áhyggjur af því að þarna verði ekki endilega starfað að því að horfa sérstaklega til loftslagsbreytinga, enda hef ég ekki séð þær nefndar, ég á eftir að lesa það betur í þessum stofnsamningi, sem ættu að vera höfuðverkefni allra samfélagslegra bankastofnana sem við tökum þátt í akkúrat núna. Við erum að koma út úr heitasta ári sögunnar frá því að mælingar hófust og því er spáð að 2016 verði enn hlýrra. Eftir Parísarfundinn ættu allir að taka á því hvernig við getum látið allt kerfið fara að vinna að þessu markmiði. Þar sem ég hef kynnt mér þetta mál óttast menn einmitt að þótt hér sé talað um sjálfbærni séu engin raunhæf markmið sett fram um það að miða eigi fjárfestingar að því að ná loftslagsmarkmiðunum.

Ef Ísland ætlar að vera stofnaðili að þessum banka og er í raun og veru orðið það og ætlar að taka þátt þarna og eiga einhvern fulltrúa þá ætti Ísland að tala fyrir því að loftslagsmarkmiðin yrðu hluti af stofnsamningnum. Það gerist náttúrulega ekkert nema einhver komi fram með slík sjónarmið. Annars gerist ekkert.

Ef við horfum á stöðuna í Kína og hvað hefur verið að gerast þar varðandi iðnaðaruppbyggingu og annað þá held ég að það sé mikil þörf á því að þar verði sett skýrari markmið um hvernig eigi að vinna gegn loftslagsbreytingum. Þar höfum við séð mikla fjárfestingu sem hefur alls ekki hjálpað þeirri þróun.

Ég tel að við séum að horfa fyrst og fremst á alþjóðapólitískt mál þar sem ríki eru að styrkja stöðu sína í hinu pólitíska alþjóðasamhengi. Mér finnst eðlilegt að við ræðum það á þeim forsendum hvar við viljum stilla okkur upp og setja okkur á bás í þeim efnum.

Ég hef fylgst með þessari umræðu og veit að aðrar Norðurlandaþjóðir og Evrópuríki hafa ákveðið að taka þátt í þessu, ekki síst af því að þau telja að þarna sé mjög mikill vöxtur fram undan og sjá fyrir sér fjárfestingartækifæri. Mér finnst að minnsta kosti mikilvægt að í umræðu utanríkismálanefndar verði skoðaður munurinn á því hvort Ísland er að fara í þetta til að skapa íslenskum fyrirtækjum betri tækifæri — en eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson nefndi hér áðan er ekkert endilega víst að aðild að þessum banka geri það sérstaklega og það þarf þá að ræða það í utanríkismálanefnd — eða hvort við lítum á þetta sem framlag til þróunarsamvinnu og teljum virkilega að fullnægjandi ákvæði í stofnsamningnum renni stoðum undir það. Ég verð að segja að eftir fyrstu umferð tel ég svo ekki vera. Ég sé ekki að hér sé nægilega klárlega gengið frá því að þessi banki eigi að vinna að samfélagslegum markmiðum og umhverfismarkmiðum, eins og þyrfti að vera ef við ætluðum að tryggja að uppbygging í Asíu yrði sjálfbær í raun og sann og gengi ekki um of á auðlindir jarðar til lengri tíma.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en lýsi þessum áhyggjum í fyrri umræðu og vonast til að þessi sjónarmið verði tekin til skoðunar í hv. utanríkismálanefnd.