145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 116/2015 um breytingu á XIII. viðauka og XIX. viðauka við EES-samninginn.

431. mál
[12:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 116/2015 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn um flutningastarfsemi og fella inn í samninginn reglugerð og réttindi farþega sem ferðast á sjó.

Markmið reglugerðarinnar er að réttindi farþega á sjó og skipgengum vatnaleiðum verði sambærileg réttindum flugfarþega og farþega á landi. Með gerðinni eru settar reglur um flutninga á sjó eða skipgengum vatnaleiðum að því er varðar bann við mismunun farþega hvað varðar flutningsskilyrði og bann við mismunun fatlaðra og hreyfihamlaðra. Réttindi sem gerðin snýr að varða ábyrgð rekstraraðila þegar slys eiga sér stað, aðgengi fatlaðra og fólks með skerta hreyfigetu, réttindi farþega og skyldur rekstraraðila þegar röskun verður á ferðatíma, upplýsingaskyldu rekstraraðila og hraða málsmeðferðar í tengslum við brot gegn réttindum farþega.

Gerðin tekur til allra tegunda skipa sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni á sjó og skipgengum vatnaleiðum.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir að hæstv. innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á siglingalögum á yfirstandandi þingi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.