145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 195/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

434. mál
[12:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 195/2015, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál og fella inn í samninginn tilskipun um raf- og rafeindabúnaðarúrgang.

Tilskipunin er endurútgáfa á eldri tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang sem innleidd hefur verið hér á landi. Í tilskipuninni eru nokkur nýmæli svo sem að lögð er fram ný flokkun á raf- og rafeindatækjum, sett eru fram ný markmið um söfnun á raf- og rafeindatækjaúrgangi og um endurnýtingu. Þá er kveðið á um að úrgangur sem safnað hefur verið fái meðhöndlun við hæfi og að sérstakt eftirlit sé með úrgangi af þessu tagi sem fluttur er úr landi. Í tilskipuninni koma fram jafnframt auknar kröfur til skráningar í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs á yfirstandandi þingi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.