145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:30]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum, á þskj. 730, mál nr. 456.

Með frumvarpi þessu er megináhersla lögð á einföldun fyrir atvinnulífið í landinu, að draga úr umsýslukostnaði minnstu félaganna og bæta viðskiptaumhverfi þeirra. Við undirbúning frumvarpsins var farið markvisst yfir greinar laganna, þær skoðaðar með tilliti til mögulegrar einföldunar og farið var yfir ábendingar um hvað betur mætti fara. Er þetta í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni þess að leiðarljósi, þess að draga úr óþarfa skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri.

Einnig er með frumvarpinu innleidd tilskipun Evrópusambandsins sem fjallar um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð og fellir úr gildi eldri ársreikningatilskipanir Evrópusambandsins.

Markmið tilskipunarinnar er meðal annars að draga úr umsýslukostnaði lítilla og meðalstórra félaga og bæta viðskiptaumhverfi þeirra.

Vinnuhópur undir forustu sérfræðings í ráðuneytinu vann að undirbúningi frumvarpsins. Í vinnuhópnum sátu fulltrúar frá ársreikningaskrá, Fjármálaeftirlitinu, Félagi löggiltra endurskoðenda og Félagi bókhaldsstofa.

Í byrjun september síðastliðnum var hagsmunaaðilum boðið á opinn kynningarfund þar sem frumvarpið var kynnt og í framhaldi var það sett á heimasíðu ráðuneytisins og óskað eftir umsögnum. Alls bárust 11 umsagnir sem farið var yfir og gerðar breytingar á frumvarpsdrögunum þar sem tekið var tillit til nokkurra þeirra athugasemda sem bárust.

Helstu nýmæli frumvarpsins eru til dæmis að lögð er til ný stærðarflokkun félaga. Nýr flokkur, svonefnd örfélög, eru félög sem fara ekki yfir mörkin á að minnsta kosti tveimur af eftirfarandi þáttum: Að vera með 20 millj. kr. í niðurstöðutölu efnahagsreiknings, 40 millj. kr. í hreina veltu og þrjú ársverk að meðaltali.

Aðrir flokkar eru lítil félög, meðalstór félög og stór félög, en þau stærðarmörk eru þau sömu og í Evrópu. Flokkur örfélaga, og það vekur athygli, nær þó yfir rúmlega 80% allra íslenskra félaga og mun frumvarpið því hafa víðtæk áhrif til einföldunar í íslensku atvinnulífi.

Þessum félögum verður heimilt að skila einfaldri útgáfu af ársreikningi til ársreikningaskrár sem byggist á skattframtali félagsins. Forsvarsmenn félagsins geta um leið og þeir skila skattframtali valið að gefa samþykki sitt fyrir því að lykiltölur úr skattframtali félagsins verði sendar ársreikningaskrá sem fullgildur ársreikningur til birtingar.

Við höfum unnið að þessu um nokkurt skeið í góðu samstarfi við ríkisskattstjóra undir vinnuheitinu „hnappurinn“ þar sem ætlunin er að þetta verði gert með sem einföldustum rafrænum hætti og að við skil á skattframtali vegna reikningsársins 2016 verði „hnappurinn“ kominn í framkvæmd.

Ég leyfi mér að halda því fram hér að þetta muni hafa jafn mikil áhrif til einföldunar og aukinnar skilvirkni og þegar skattskil einstaklinga og fyrirtækja voru gerð rafræn og auðvelda alla umsýslu til muna.

Slíkan ársreikning þarf hvorki að yfirfara af skoðunarmanni né endurskoða og ekki þarf að láta skýrslu stjórnar fylgja með honum. Þetta einfaldar skil fyrir um 80% félaga á Íslandi og minnkar stjórnsýslukostnað þessara félaga verulega. Einnig má ætla að fleiri félög skili ársreikningum á réttum tíma með þessu fyrirkomulagi, sem mun bæta gæði ársreikningaskrárinnar. Þetta skapar einnig tækifæri fyrir eftirlitsaðila til að einbeita sér að skilum stærri félaga.

Þau ákvæði tilskipunarinnar er lúta að einföldun fyrir örfélög eru valkvæð og er það látið í hendur EES-ríkjanna að ákveða hvort og þá hvernig þau vilja haga einföldun sérstaklega fyrir þessi allra minnstu félög Evrópu. Þegar stærðarmörkin voru sett af Evrópusambandinu með tilskipuninni var ætlað að um 75% félaga í Evrópu féllu undir stærðarmörk tilskipunarinnar. Vinnuhópur ráðuneytisins, sem ég nefndi áðan, skoðaði þau mörk með tilliti til markaðarins hér á landi.

Séu notuð algerlega sömu viðmið og fram koma í tilskipuninni mundu um 90% íslenskra félaga falla undir þá skilgreiningu að vera örfélag.

Það var mat nefndarinnar að fara ætti milliveginn á milli 75% og 90% og stærðarmörkin látin ná utan um 80% félaga sem er svipuð leið og önnur ríki á Norðurlöndum eru að fara. Það má að sjálfsögðu hafa skoðun á því hvar þessi mörk ættu að liggja og vil ég hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að fara yfir það og meta hvort gera skuli breytingar á mörkunum.

Mín ákvörðun var að fara að tillögum nefndarinnar að þessu leyti og láta það í hendur þingsins að meta hvort gera eigi á því breytingar.

Með löggjöf um reikningsskil þarf að tryggja jafnvægi milli hagsmuna viðtakanda reikningsskila og hagsmuna félaga með tilliti til þess að skylda til skýrslugjafar sé ekki óþarflega íþyngjandi.

Samkvæmt frumvarpinu er dregið úr upplýsingagjöf í ársreikningi lítilla félaga og ekki er gerð krafa um að lítil félög birti sjóðstreymi með ársreikningi sínum. Einnig eru litlar samstæður undanþegnar þeirri skyldu að semja samstæðureikning.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu eru enn fremur lagðar til breytingar í ljósi reynslu síðustu ára og einstök atriði skilgreind nánar. Má þar nefna breytingu á 19. gr. laganna sem felur í sér að eigin hlutir skuli færðir til lækkunar á heildarhlutafé. Samkvæmt þessu verður óheimilt að eignfæra eigin hluti, enda eru þeir ekki eign í sjálfu sér heldur aðeins breyting á fjármagnsskipan félagsins. Einnig er fellt niður ákvæði í 110. gr. laganna um að sameignarfélög og samlagsfélög skuli senda ársreikningaskrá tilkynningu um nafn, heimilisfang, félagaform og atvinnugrein sína samtímis því að þau senda henni í fyrsta sinn birtingarskyld gögn. Þessar upplýsingar eru nú skráðar í firmaskrá sem vistuð er hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og því er ekki talin þörf á þessu ákvæði.

Með frumvarpinu er einnig innleidd tilskipun Evrópusambandsins er varðar birtingu tiltekinna stórra félaga og samstæðna á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika. Samkvæmt tilskipuninni skulu stór félög með 500 starfsmenn eða fleiri upplýsa um áhrif þeirra á umhverfi og samfélag en markmið hennar er að auka gagnsæi hjá fyrirtækjum og bæta frammistöðu þeirra í umhverfis- og samfélagsmálum.

Lagt er til, aftur að tillögu vinnuhópsins, að ákvæðið nái til stórra félaga hér á landi með 250 starfsmenn eða fleiri í samræmi við löggjöf í löndunum í kringum okkur en það eru um 90 félög af þeirri stærðargráðu á Íslandi. Þetta er annað atriði sem ég bið hv. efnahags- og viðskiptanefnd að taka sérstaklega til skoðunar í meðferð sinni, hvort að stærðarmörkin samkvæmt tilskipuninni eigi að ráða eða sú stærðarflokkun sem vinnuhópurinn lagði til og er skrifuð í frumvarpið.

Aðrar breytingar í frumvarpinu miða að því að auka gagnsæi í viðskiptum, þar með talið að sporna við kennitöluflakki og bæta skil ársreikninga. Í því sambandi er lögð til breyting á 1. gr. laganna til að tryggt sé að öll félög sem falla undir lög um ársreikninga skili ársreikningum til ársreikningaskrár hvort sem þau stunda atvinnurekstur eða ekki. Jafnframt er lagt til að styrkt verði sektarheimild ársreikningaskrár þannig að ferlið við að knýja fram skil á ársreikningum taki styttri tíma og sé einfaldara í framkvæmd en verið hefur. Enn fremur er lagt til að stytta ferlið varðandi slit félaga hafi ársreikningi ekki verið skilað. Jafnframt er lagt til að heimild til að krefjast slita verði færð til ársreikningaskrár en nú er sú heimild hjá ráðherra.

Markmiðið með þessum breytingum er að ársreikningaskráin endurspegli betur en nú raunveruleikann í íslensku atvinnulífi þar sem að brögð eru að því að svokölluð „dauð“ félög hangi inni á skránni um árabil þótt engin starfsemi sé eða standi til í viðkomandi félagi.

Enn fremur var farið yfir viðurlagaákvæði laganna og á þeim gerðar gagngerar breytingar. Þar má fyrst nefna breytingar til einföldunar við álagningu stjórnvaldssekta vanræki félög skyldu sína til að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan tilskilins frests eða leggi fram ófullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi.

Lagt er til að ársreikningaskrá sendi bréf þar sem úrbóta er krafist og jafnframt er lögð á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 600 þús. kr. Skili félagið svo fullnægjandi upplýsingum innan 30 daga beri ársreikningaskrá að lækka sektarfjárhæðina um 90%. Skili félagið innan tveggja mánaða lækkar sektin um 60% og innan þriggja mánaða um 40%. Ef ekkert er aðhafst eftir átta mánuði skal ársreikningaskrá krefjast skipta á búi félagsins. Auk þess eru refsiákvæðin tiltekin í ljósi skýrleika refsiheimilda, þ.e. fyrir hvaða brot er verið að refsa og hve þung sú refsing sé.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til minni breytingar sem hljótast af almennri yfirferð yfir lögin, breytingar sem leiða af tilskipuninni og ábendingum um hvað betur mætti fara.

Herra forseti. Með frumvarpi þessu erum við að einfalda starfsumhverfi og lækka kostnað hjá um 80% fyrirtækja landsins. Við erum einnig að gera markaðinn gagnsærri með því að öll félög skili ársreikningi og hreinsa markaðinn af þeim félögum sem ekki eru virk. Það hjálpar okkur að fá betri heildarmynd yfir markaðinn, sem er grundvöllur fyrir því að geta til að mynda ráðist gegn kennitöluflakki sem mikið hefur verið í umræðunni og er mikil meinsemd í atvinnulífinu.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.