145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég verð að segja að ég var á svipuðum slóðum og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir með þær spurningar sem ég ætlaði að spyrja. Ég þakka fyrir þær upplýsingar sem komu fram en engu að síður hefur hæstv. ráðherrann ekki enn þá svarað því hvenær þingið getur átt von á því að fá frumvarp um kennitöluflakkið.

Mér finnst eins og menn séu svolítið ýta því frá sér. Ég veit að það er ekki auðvelt en engu að síður finnst mér þær skýringar sem hér eru gefnar ekki fullnægjandi um það af hverju mjög svo áríðandi frumvarp kemur ekki fram.

Auðvitað er það rétt sem ráðherrann sagði að fyrirtæki geta orðið „fallít“ en það er allt annað mál en þetta kennitöluflakk.

Ef þetta verður allt rafrænt, sem er mjög gott og ég fylgi því, þá velti ég fyrir mér, af því að ráðherrann sagði að það hefði tekið langan tíma í Danmörku að koma rafræna kerfinu á: Hvenær telur hæstv. ráðherra að kerfið verði komið og þær upplýsingar sem hún segir að hún telji nauðsynlegar að liggi fyrir áður en hún getur lagt frumvarpið um kennitöluflakk fram, sem hún var á síðasta kjörtímabili mjög áhugasöm um og talaði oft um? Hvenær telur hún að það geti orðið, ekki bara hvenær það verður tilbúið heldur allt það sem þarf að vera fyrir hendi áður en að frumvarpið kemur fram? Hvenær telur hún að það geti orðið?