145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:52]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú einu sinni þannig að ég hef engan áhuga á að koma með frumvarp sem ég er ekki sannfærð um að ráði bót á þeim vanda sem við er að etja.

Af því að þingmaðurinn spurði um þróunina í Danmörku þá fórum af stað í upphafi kjörtímabilsins til að skoða sambærileg mál annars staðar á Norðurlöndunum og við spurðum: Hvað gerið þið þegar fólk skilar ekki ársreikningum? Hvað gerið þið þegar skráin endurspeglar ekki raunveruleikann? Hvernig eruð þið með þessar upplýsingar? Þá voru svörin: Þetta er í lögum um að fólk eigi að skila ársreikningi og fyrirtæki og við glímum ekki við þetta vandamál.

Þetta er eitthvað sem þekkist ekki þar. Skrárnar og upplýsingarnar sem frændur okkar annars staðar á Norðurlöndunum eru með, og þá vil ég sérstaklega nefna Danmörku, endurspegla einmitt raunveruleikann. Þess vegna er það að mínu mati nauðsynleg forsenda fyrir okkur að gera nákvæmlega það sama þannig að við getum byggt þær ákvarðanir sem við tökum á upplýsingum en ekki einhverri tilfinningu sem við höfum öll og erum algjörlega sammála um að við þurfum að berjast gegn.

Hvenær koma þessi frumvörp? Eigum við ekki að segja að þegar við erum sannfærð um þá leið sem ákveðið verður að fara koma þau frumvörp.

Við erum líka með aðra hluti á döfinni sem til dæmis hefur verið bent á af hálfu ASÍ, sem gaf út ágæta skýrslu fyrir einhverju síðan, að það þurfi að veita meiri upplýsingar og leiðsögn til þeirra sem eru að stofnsetja fyrirtæki um réttindi þeirra og skyldur og það er í undirbúningi að (Forseti hringir.) fara með ýmsar þær aðgerðir af stað.

En ég segi það aftur og ítreka sem ég sagði í fyrra svari mínu að ég hef engan áhuga á því að koma fram með aðgerðir (Forseti hringir.) sem eru verri fyrir flesta og ná kannski ekki að uppræta vandamálið.