145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að hæstv. ráðherrann vilji ekki koma fram með frumvarp sem enginn veit hvað á að gera við og deyr í þinginu vegna þess að það er svo illa ígrundað og eitthvað svoleiðis. Ég skil vel að hún þurfi að hugsa sig um í því. Menn hljóta náttúrulega að passa sig á því að falla ekki í þá gryfju tvisvar sinnum.

En það er ekki svar. Stundum finnst manni eins og hæstv. ráðherrann hafi komist í ráðherrastól í gær eða fyrradag en það eru bráðum orðin þrjú ár síðan og ekkert kemur um þetta sem var þó sérstakt áhugamál hennar og er svo sem áhugamál mitt líka, að koma böndum á þetta kennitöluflakk.

Mér er svolítið illa við það þegar það koma frumvörp sem eru til þess að innleiða einhverjar tilskipanir en svo er heilmikið annað með. Það er bara svona í prinsippinu að mér finnst það ekki skýrt og það er stundum hægt að tala um smyglvarning með EES-gerðum sem koma inn.

Ég er ekki búin að lesa þetta frumvarp gaumgæfilega en mig langar að spyrja einfaldrar spurningar: Kemur það skýrt fram í öllu hérna hvað er vegna tilskipananna og hvað er heimatilbúið? Hvað er til heimamarkaðar, innanlandsmarkaðar, ef ég má þannig að orði komast?