145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:56]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af þeirri túlkun þingmannsins að ég hafi sagt að ég vilji ekki koma með frumvarp sem þingið mundi hafna. Það er ekki það. Ég er alveg viss um að mér tækist að fá stjórnarandstöðuna með mér í lið við að banna og setja mjög strangar reglur ef menn héldu að það væri leiðin til þess að stemma stigu við kennitöluflakki.

Það er ekki það sem ég átti við. Ég vil vera viss um að ég sé að leysa það viðfangsefni sem fyrir hendi er áður en slíkt frumvarp kemur. Og þetta frumvarp er liður í því.

Varðandi smyglumræðu hv. þingmanns þá er það þannig að þetta frumvarp, eins og ég sagði í upphafi, er tvíþætt.

Annars vegar vorum við byrjuð í þeirri vinnu og byrjuðum á því í ráðuneytinu að fara yfir þessa löggjöf eins og alla aðra löggjöf sem undir okkur heyrir um leið og við tókum við með einföldun og skilvirkni að leiðarljósi.

Síðan kemur þessi Evróputilskipun og er búin að vera í undirbúningi í einhvern tíma og ég veit að það gleður hv. þingmann, sem er kannski hlynntari Evrópusambandinu að öllu jöfnu en sú sem hér stendur, að í þessu tilfelli fóru hagsmunir og áherslur ljómandi vel saman. Evrópusambandið var í tilskipun sinni einmitt með það að leiðarljósi að auka skilvirkni, sérstaklega fyrir smærri fyrirtæki. Þetta fór því vel saman.

Það er skýrt tekið fram í greinargerð hvað tilheyrir og er nauðsynlegt vegna tilskipunarinnar og hvað ekki. Ég vakti athygli á tveimur stærðarmörkum sem eru frábrugðin í þessu frumvarpi frá tilskipuninni og ítreka það að ég hvet hv. nefnd til þess að skoða það. Þetta var niðurstaða vinnuhópsins sem hafði skoðað þetta ítarlega og því legg ég þá tillögu fram. En mér finnst mjög mikilvægt að nefndin fari vel yfir þessi atriði.