145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir frumvarpið. Ég sé að það hefur tekið ágætum breytingum frá því að það var lagt hér fram á síðasta þingi þó að það sé alltaf erfitt að ná utan um þessi mál eins og við best vildum gera. En það hefur batnað töluvert á milli þinga.

Aðeins varðandi flokkunina. Ef ég rek tíu rúma gistiheimili yfir hásumartímann, segjum bara í þrjá mánuði, þarf ég að borga leyfisgjöld og fara í gegnum ferlið, en ég get líka skráð það sem heimagistingu og ekkert borgað fyrir það. Ég þarf að fá aðeins betri skýringu á því. Þetta er veruleikinn úti á landi. Til eru dæmi um gistiheimili með tíu rúmum og þá þarf ekki tilteknar eldvarnir og svo framvegis en gistiheimilið er fært inn sem lögaðili af því að gerðar voru kröfur um það. En svo leigja aðilar út sambærilegan rúmafjölda og samkvæmt þessu þurfa þeir ekki að fara í gegnum sama prósess eða borga sömu gjöld.

Mig langar líka að spyrja varðandi það að eiga íbúðir Fram kemur á blaðsíðu 14 að verið er að mælast til þess að aðstaðan sé helst í öðru póstnúmeri þótt það sé ekki skilyrði. Það er líka þannig að við stöndum frammi fyrir því að fólk á kannski tvær eignir á sama stað í sama póstnúmeri, svo á það tvær eignir á höfuðborgarsvæðinu í sitthvoru póstnúmerinu. Er það þá í lagi en hitt síður í lagi? Mér finnst vera lagt til á blaðsíðu 14 að það þurfi eiginlega að vera hvort á sinn veginn.