145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að fara í gegnum þetta mál. Þetta eru fínar umræður og þær voru það líka síðast og leiddu meðal annars af sér að frumvarpið hefur batnað á milli þinga, eins og ég sagði áðan.

Meðal þess sem mér þykir gott í frumvarpinu eru hin ótímabundnu leyfi sem verið er að veita minnstu stöðunum og held að það sé einmitt leiðin til að létta á öllu ferlinu og sé nauðsynlegt til þess að koma til móts við þann þátt sem gagnrýndur hefur verið mjög mikið, að litlir aðilar þurfi að ganga í gegnum nákvæmlega sama ferli og stórir aðilar þótt þeir séu með miklu minna umfang. Mér finnst mjög gott að tekið sé á því. Ég velti samt áfram fyrir mér heimagistingunni. Mér finnast reyndar 8.000 kr. vera alveg ágætisfjárhæð vegna þess að það skiptir máli, það getur verið hæfilegt fyrir þann sem leigir út sumarhúsið sitt örfáa daga á ári en vill samt vera löglegur og með allt uppi á borðinu, eins og sagt er. Hann jafnvel leigir það út þannig að það þarf að undirbúa það, búa um rúm og þrífa og gera klárt, en það eru samt kannski ekki 90 dagar sem hann nær að leigja það út, kannski bara 20 eða 30. En hér á höfuðborgarsvæðinu fær maður stundum inn mjög háar fjárhæðir á fáum gistinóttum. Það er svona kannski eitthvert meðalhóf í því, ég skal ekki segja, en ég skildi það einmitt þannig að þetta væri árlegt. Ég hefði líka viljað sjá að þetta væri einmitt ekki bara hugsað út frá dagafjölda heldur líka leigutekjum. Hugsanlega mundi það ekki ná viðskiptunum upp á yfirborðið ef það væri líka svo.

Ég hef áhyggjur af fasteignasköttunum. Ég mundi vilja fá svolitla umræðu um það í nefndinni af því að það er mjög mismunandi hvernig sveitarfélög gera þetta. Þau leggja fasteignaskatta á aðila sem leigja út ákveðið marga daga á ári, og þessar átta vikur eins og var í lögunum eða hvað það var, eins og um rekstur sé að ræða. Ég held að það mundi þurfa að samræma það mun betur þannig að það sé ekki hentistefna sveitarfélaga hverju sinni hvernig það er.

Mig langar svo næst að tala um það sem kallast veitingastaðir án áfengis, starfsemi ekki lengur rekstrarleyfisskyld. Ég vil samt aðeins velta því upp af því að hér er bara tekið dæmi um bakarí sem hefur nokkur borð, að þetta getur auðvitað verið stór staður. Það getur alveg verið staður með 100 sæti. Það er ekkert sem mælir gegn því. Það eina sem segir þar er að ekki megi selja áfengi. Það er í rauninni það sem er frábrugðið annars konar veitingastað. Mér hefði fundist að nefndin hefði þurft að skoða það hvort setja bæri eitthvert hámark á það hversu stórir staðirnir mættu vera sem falla þarna undir eða hversu mörg sæti þeir mega hafa.

Síðan er það eftirlitið sem við höfum talað töluvert um og gerðum það líka síðast. Ég hef, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, áhyggjur af eftirlitinu af því að eins og kemur fram í greinargerðinni, umsögninni frá fjármálaráðuneytinu, að ég held, er sagt að eftirlitið hafi verið lítið og aðallega byggst á athugunum í framhaldi af ábendingum eða kvörtunum frá nágrönnum. Eins og ég sagði áðan er kannski ekkert sem segir að það verði eitthvað öðruvísi núna en það hefur verið. Það er eiginlega ekkert sem styður það þó að sýslumönnum sé falið eftirlitið að hluta eða eitthvað slíkt. Svo kemur síðar fram að ákveðnir aðilar eiga að safna þessu saman og tilkynna þannig að frekar verði hægt að hafa eftirlit með þessu.

Eins varðandi þessa 90 daga, það er að mínu mati mjög erfitt að halda utan um það ef maður fær að leigja í 90 daga yfir allt árið, maður leigir þrjá daga í janúar, sjö í maí, 30 í júní, en hver á að fylgjast með því? Í rauninni getur verið þannig ef um sumarhús er að ræða eða íbúð sem maður á er í rauninni rosalega erfitt að ná utan um það hversu mikið er leigt út. Þetta er tilraun til þess að taka utan um það að einhverju leyti, en ég hef miklar efasemdir um eftirlitið.

Ráðherra svaraði ágætlega og sagði að það skipti ekki höfuðmáli að húsnæðið sem leigt er út væri í sama póstnúmeri, hvort sem um frístundahúsnæði eða annað er ræða. Hún benti á dæmi úr sínu kjördæmi og ég þekki einnig slíkt úr mínu kjördæmi.

Varðandi d-lið 8. gr. um númerið. Mikið er talað um það í frumvarpinu að þegar komi að endurnýjun leyfa falli aðilar inn í þetta nýja system. Fylgir þessi númeraúthlutun því eða á að reyna að ná utan um þetta strax?

Svo er það í d-lið 15. gr. þar sem talað er um tækifærisleyfi og sækja þurfi um þau með þriggja vikna fyrirvara í stað einnar. Rökin sem færð eru fyrir því að það gæti þurft að leita umsagna og gæti tekið tíma. Mér finnast þrjár vikur of langur tími, sjá d-lið 15. gr. á bls. 19. Það er oft sem kemur eitthvað upp á. Ég hef staðið í svona rekstri (Gripið fram í.)og það er oft eitthvað sem kemur upp á. Manni býðst til dæmis að taka inn einhvern skemmtikraft eða eitthvað með tiltölulega skömmum fyrirvara, ekki endilega þriggja vikna fyrirvara. Ég legg til að farið verði aðeins ofan í það hvort hægt sé að mætast þarna einhvers staðar. Vika er kannski of stutt, en þrjár vikur finnst mér of langt.

Svo verð ég að lokum að koma að samráðinu og kostnaðinum þar sem í rauninni er verið að færa eftirlitið töluvert mikið til sveitarfélaganna, heilbrigðiseftirlitsins og byggingarfulltrúans, slökkviliðsins o.s.frv. Þessir aðilar eiga að standa fyrir því að koma samræmdum skilaboðum áleiðis. Það er nú vissulega svo. Sveitarfélögin veita jú umsagnir um leyfi og það er samstarf á milli þeirra og sýslumanna og allt það, en talað er um að þetta geti leitt til kostnaðarauka að einhverju leyti. Þótt ráðuneytið geri ekki ráð fyrir að hann verði mikill legg ég til að nefndin kanni það því að sambandið gerir hér athugasemdir og vilja nú láta vakta áhrif fyrirhugaðra breytinga og meta hvort þær valdi verulegum kostnaðarauka. Það á kannski eftir að koma í ljós hvort sú skilvirkni sem frumvarpið byggir töluvert mikið á nái fram að ganga af því að það stendur og fellur með því að þessir aðilar, þ.e. sveitarfélögin og eftirlit á þeirra vegum, standi undir þeim væntingum sem gerðar eru til þeirra.

Meiningin var að færa aukin verkefni til sýslumanna. Ég hef talað mikið fyrir því að það eigi að gera það. Hér er talað um fimm stöðugildi á bls. 25 í umsögn fjármálaráðuneytisins. Ef ég skil það rétt fara þau öll á höfuðborgarsvæðið þar sem vissulega er mestur fjöldi og mesta álagið. Talað er um að þetta rúmist innan útgjaldaramma innanríkisráðuneytisins. Jafnframt er talað um kostnað vegna forritunar og kerfisvinnu, 10 millj. kr. o.s.frv. Ég veit að það þarf aukið fjármagn til þessara fimm stöðugilda, en eftirlitið með heimagistingunni á að rúmast innan fjárhagsramma ráðuneytisins. Á þá að millifæra milli lögreglunnar og sýslumannanna? Það má skilja það þannig af því að talað er í sömu setningunni um að kostnaðurinn dragist saman hjá lögreglustjóranum en aukist svo aftur hjá sýslumönnunum. Allir þessir aðilar hafa verið að kvarta yfir því að hafa ekki næga fjármuni á milli handanna eða til að reka embættin.

Þetta var nú fyrsta atrenna. Þetta leiðir auðvitað til kostnaðarauka um rúmar 30 millj. kr. árlega sem felst væntanlega fyrst og fremst í styrkingu sýslumannsembættanna og umsýslu varðandi skráningu heimagistingarinnar að stærstu leyti. Mér finnst eins og landsbyggðarsýslumenn eigi að taka þetta af rekstrarfé sínu að mestu leyti en að hér eigi að bæta við töluvert af mannskap.