145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:57]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fínar ábendingar, margar hverjar, sem ég hvet nefndina til að skoða vel í meðförum þingsins.

Þingmaðurinn talaði um að senda þurfi skýr skilaboð til sveitarfélaganna varðandi gjaldtöku, fasteignagjöldin, eins og ég skildi. Þar er ég algjörlega sammála. Markmiðið með þessu er að ná til einstaklinga en ekki lögaðila, það er ekki ætlunin. Núna er það þannig að einstaklingar þurfa að greiða hærri fasteignagjöld og þurfa að greiða hærri kostnað og það er eitt af því sem er að letja fólk til að skrá sig. Ég tel því afar mikilvægt, og hvet sveitarfélögin til að koma sér saman um að hugsa það þannig með okkur, að hafa þetta án hærri fasteignagjalda og einbeita sér að því með okkur að ná utan um lögaðilana sem stunda þetta í atvinnurekstri.

Ég skil heldur ekki hvernig ætlunin er að framfylgja því. Segjum að sveitarfélag ætli að koma með 90 daga rukkun til einstaklinga sem skrá sig, en heimildin er til 90 daga, svo getur vel verið að eignin leigist bara út í viku þegar viðkomandi fjölskylda er í sumarfríi. Hvernig er hægt að hafa eftirlitið með því? Ég held að það sé snúið og að það fæli einstaklinga frá því að taka þátt í þessu. Þannig að ég vil senda skýr skilaboð til sveitarfélaganna um það.

Varðandi eftirlitið og sýslumenn, og heimildina til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, þá er þetta nefnt í kostnaðarmatinu og verður að sjálfsögðu innanríkisráðuneytisins og þeirra að útfæra það hvernig þessum fjármunum (Forseti hringir.) og þessum stöðugildum verður úthlutað. Ég hef fulla trú á því að tekið verði mjög gott tillit til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður nefndi hér.