145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[15:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegu forseti. Ég missti því miður af framsöguræðu hæstv. ráðherra um þetta mál og umræðunni í kjölfarið og kem núna ferskur að þessu. En ég er búinn að fylgjast með málinu af athygli og lúslesa frumvarpið núna og þegar það kom fram á síðasta þingi. Mér finnst þetta mjög áhugavert mál og mikilvægt, að reyna að einfalda regluverkið varðandi heimagistingu og veitingastaði og reyna að takast á við þann veruleika sem blasir við að deilihagkerfið er einfaldlega komið til að vera. Fólk vill leigja íbúðir sínar til ferðamanna og við verðum að reyna að taka utan um þá þróun og fagna henni. Þetta eykur fjölbreytni í gistimöguleikum og ég held að öll þessi þróun, Airbnb og fleiri heimasíður, auki fjölda ferðamanna til Íslands. Mér finnst þetta gríðarlega aðkallandi.

Ég las skýrslu um einföldun í regluverki ferðaþjónustu sem hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu komu að og ég var svolítið „svag“ fyrir þeim niðurstöðum sem þar voru birtar, sérstaklega þegar kom að heimagistingunni. Mér hefur lengi fundist það algjörlega augljóst að regluverkið í kringum heimagistinguna, þar sem eru í raun gerðar sömu kröfur til heimagistingar og til gistiheimila, sé algjörlega úrelt miðað við þann veruleika sem blasir við. Það leiðir einfaldlega til þess að þessi þjónusta fer niður í svarta hagkerfið, fólk sækir ekki um leyfi og við náum ekki tökum á þessu. Ef ég man rétt þá lagði þessi hópur eða nefnd til að regluverkið yrði einfaldað þannig að fólk sem vildi leigja út rými mætti bara leigja út að hámarki tvö rými eða hvort það voru þrjú. Að minnsta kosti var leigan bundin við fjölda rýma. Leiðin sem farin er í frumvarpinu er sú að binda hana við fjölda daga. Hópurinn lagði til að heimagisting yrði bara tilkynningarskyld eins og hæstv. ráðherra leggur til í frumvarpinu, það þyrfti ekki að sækja um öll þessi leyfi, en vissulega þyrfti að uppfylla skilyrði um brunavarnir og það allt saman sem er augljóst. Það yrði bara þessi tilkynningarskylda en leigan var hins vegar ekki bundin við dagafjölda heldur einfaldlega fjölda rýma. Ef maður er með eitthvert rými heima hjá sér sem maður ætlar ekki að nota til eigin nota og vill gjarnan leigja út, vill gjarnan stunda þann lífsstíl að fá ferðamenn inn í húsið sitt allan ársins hring, þá hefði það samkvæmt tillögu þessarar nefndar verið tilkynningarskylt. Í frumvarpinu er farin sú leið að binda þetta við 90 daga, maður megi bara stunda þennan lífsstíl að leigja ferðamönnum rými í húsinu sínu, þótt það sé jafnvel bara eitt rými, í 90 daga.

Ræða mín er eiginlega eins konar andsvar, ég missti af tækifærinu til að koma í andsvar við ráðherra áðan, en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er farin þessi leið? Af hverju er þetta bundið við 90 daga? Hvar lendir fólk sem vill leigja út varanlega eitt eða tvö rými heima hjá sér inn á Airbnb eða til ferðamanna? Verður það eftir sem áður að sækja um leyfi á sama hátt og það væri að reka gistiheimili? (Gripið fram í.) Ef það vill leigja út allt árið um kring, eitt rými? Af hverju er verið að binda leiguna við 90 daga? Af hverju er ekki farin sú leið sem þessi hópur um einföldun á regluverki lagði til og binda þetta frekar við fjölda rýma? Það væri komið í veg fyrir að fólk væri að fara út í einhvern massífan atvinnurekstur með því einfaldlega að segja að gistingin væri takmörkuð við það hversu mikið maður gæti leigt út en ekki við hversu marga daga á ári maður gæti leigt út.

Það kemur upp þessi furðulega staða að fólk er með eitthvert rými heima hjá sér og vill leigja það út og taka þátt í deilihagkerfinu og bjóða ferðamönnum upp á þennan gistimöguleika, nennir ekki að fara í þessar leyfisumsóknir fyrir gistiheimili, en veruleikinn er sá gagnvart þessu fólki að það má bara leigja út rýmið í 90 daga og restin af árinu stendur það autt. Af hverju er þessi leið farin? Mig langar að spyrja að því.