145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

sala Landsbankans á hlut sínum í Borgun.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sala Landsbankans á hlut sínum í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun hefur mikið verið í umræðu upp á síðkastið og eru fréttir, sem nú hafa borist af hagnaði sem kaupendur þessa hlutar eiga í vændum, þess eðlis að eðlilegt er að spyrja spurninga um verðmæti sem lá til grundvallar, um aðferðina við söluna og hvort menn hafi metið rétt verðmæti hins selda.

Í þessu samhengi þarf líka að horfa til þess af hverju leynd var höfð um sölu eignarhlutsins í stað þess að bjóða hann almennt til sölu í opinni samkeppni sem og af hverju ekki voru í þessum tiltekna samningi sams konar ákvæði og við sölu á Valitor um aðgang Landsbankans að hagnaði sem gæti myndast vegna eigendaskipta á Evrópuhluta Visa.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi gert reka að því að afla upplýsinga um þetta mál og hvort hann sé sammála mér um mikilvægi þess að það verði rannsakað í þaula, hvort sem það gerist fyrir tilverknað stjórnvalda eða hér á vettvangi þingsins.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að rekja atburðarásina í þessu máli, ákvarðanirnar, vegna þess að fram undan er mikil sala ríkiseigna og það skiptir mjög miklu máli að hægt sé að byggja trúverðuga umgjörð um hana og hefja það yfir allan vafa að verið sé að verja hagsmuni ríkisins og gæta þess að fyrir almannaeigur fáist fullt verð.

Er ráðherra sammála mér um þetta og er hann tilbúinn að veita liðsstyrk síns flokks og ríkisstjórnarinnar við að þetta komi, fyrir tilverknað Alþingis, til rannsóknar eða standa fyrir rannsókn sjálfur að eigin frumkvæði?