145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

staða heilbrigðiskerfisins.

[15:13]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Ég veit ekki alveg hvernig hann reiknar út tölurnar um að framlög hafi aldrei verið hærri, en látum það liggja á milli hluta, það stemmir ekki alveg við þær tölur sem ég hef verið að horfa á. Mér finnst mikilvægt að við komumst frá þvargi um tölurnar, upp eða niður, og einbeitum okkur að því að gera gangskör í alvöruuppbyggingu og áætlun þar um, sem er ekki bara einhvers staðar inn í framtíðina, óljósa framtíð, ef vel gengur, heldur að fylgja eftir þessari tilfinningu í samfélaginu sem við sjáum í þessari undirskriftasöfnun og sjáum trekk í trekk í skoðanakönnunum. Landsmenn vilja sterkari og hraðari uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu eftir langan tíma. Ég kalla eftir því að við sjáum áætlun um það, (Forseti hringir.) að við förum að taka ákvarðanir um að ganga í verkið þegar kemur að uppbyggingu nýs Landspítala.