145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

ráðstöfum eigna á Stjórnarráðsreit.

[15:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Fram hefur komið að forsætisráðuneytið hefur ritað undir yfirlýsingu ráðuneytisins og Landstólpa þróunarfélags ehf. varðandi samkomulag um drög að hönnun sem lýtur að byggingarmagni sem miðar að þörfum ráðuneyta Stjórnarráðsins sem leigutaka og að jafnframt verði unnin drög að leigusamningi milli Stjórnarráðs Íslands og Landstólpa vegna skrifstofuhúsnæðis.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að ráðuneytið eigi einnig í viðræðum um að skipta á lóðinni og lóð ríkisins við hlið sjávarútvegsráðuneytisins. Þá er ég að tala um þann reit sem oftast er kallaður Stjórnarráðsreitur. Gert er ráð fyrir að niðurstöður úr þeim viðræðum liggi fyrir á næstu þremur vikum og stendur væntanlega til að koma til móts við væntingar forsætisráðherra um að draga úr byggingarmagni á Hafnartorgi og auka það þá væntanlega á móti á Stjórnarráðsreit.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra — það hefur líka komið fram að menn komu nokkuð af fjöllum í stjórnarflokkunum þegar þetta kom í fjölmiðla, einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins fréttu af þessu í fjölmiðlum — hvaða lagaheimildir hann styðst við þegar hann ráðstafar ríkiseignum á Stjórnarráðsreit. Samkvæmt forsetaúrskurði er það fjármálaráðherra sem ráðstafar eignum ríkisins og er raunar staðfest í lögum um opinber fjármál að svo sé. Það er raunar engin 6. gr. heimild til staðar í núgildandi og nýsamþykktum fjárlögum um ráðstöfun þessa reits með nokkru móti.

Ég held því að við hljótum að spyrja hér á Alþingi: Er búið að samþykkja þetta mál í ríkisstjórn? Er þá um það að ræða að forsætisráðherra hafi verið falið þetta hlutverk sem, samkvæmt forsetaúrskurði, á að vera á hendi fjármálaráðherra?