145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

starfsmannaleigur og félagsleg undirboð.

390. mál
[15:44]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og ítreka aftur þakkir mínar varðandi fyrirspurnina. Ég vil endurtaka það sem ég sagði í svari mínu, að ég hef þegar óskað eftir að skoðað verði hvort og þá með hvaða hætti sé rétt að gera breytingar á þeim lögum sem falla undir mitt málefnasvið hvað varðar heimildir Vinnumálastofnunar til eftirlits sem og aðgerða þegar þurfa þykir. Ég ítreka líka að í mínum huga er þetta samstarf. Það verður aldrei þannig að við getum tryggt eftirlit með vinnumarkaðnum fyrst og fremst í gegnum starfsmenn Vinnumálastofnunar heldur með samstarfi, þríhliða samstarfi sem einkennir íslenskan vinnumarkað, þ.e. verkalýðsfélög, hið opinbera og atvinnurekendur, um að tryggja að farið sé eftir þeim lögum og reglum sem gilda á vinnumarkaðnum.

Þegar kemur að störfum og rekstri fyrirtækja vitum við að langflestir vilja gera eins vel og þeir mögulega geta gagnvart starfsfólki sínu og fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda hér í landinu. Hins vegar vitum við að það eru alltaf einstaka fyrirtæki, einstaklingar, sem gera það ekki. Við þurfum þá að hafa kerfi til að fylgjast með því. Ég hef komið þessum áherslum skýrt á framfæri við stjórnendur Vinnumálastofnunar og jafnframt átt góða fundi með forustu ASÍ til þess að taka við ábendingum frá þeim og fara yfir þessa áherslu hjá mér.

Það er bjart fram undan á íslenskum vinnumarkaði. Við munum þurfa á fleirum að halda sem vilja taka þátt í uppbyggingunni á Íslandi og það er mikilvægt að við tökum vel á móti þeim og gætum þess að ekki sé brotið á réttindum þeirra.