145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

ákvæði um greiðslu sérstakrar framfærsluuppbótar í samræmi við búsetu hér á landi.

408. mál
[15:50]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hefur beint til mín um ákvæði um greiðslu sérstakrar framfærsluuppbótar í samræmi við búsetu hér á landi. Þingmaðurinn spyr hvort það komi til greina að fella niður eða endurskoða 3. mgr. 15. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, nr. 1052/2009, sem kveður á um að sérstök uppbót til framfærslu skuli greiðast í samræmi við búsetu hér á landi.

Eins og kemur fram í fyrirspurninni er í 15. gr. reglugerðarinnar kveðið á um að sérstök uppbót skuli reiknast í samræmi við ákvæði 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í þeim ákvæðum er fjallað um hlutfallslega ávinnslu réttar til almannatrygginga en umrædd reglugerð varðar framkvæmd bæði laga um félagslega aðstoð og laga um almannatryggingar.

Almannatryggingakerfið er byggt upp með þeim hætti að þeir sem hér búa öðlast rétt í hlutfalli við búsetutímann. Þannig öðlast þeir sem búið hafa hér á landi í 40 ár full réttindi en þeir sem búið hafa hér skemur öðlast hlutfallslegan rétt. Þegar um örorkulífeyri er að ræða er tíminn fram til 67 ára aldurs umsækjanda tekinn með við útreikninginn sem leiðir til hærra réttindahlutfalls. Þannig þarf tiltekna lágmarksbúsetu til að réttindi skapist hjá almannatryggingum, enda væri það að mínu mati ekki rétt og mundi grafa undan almannatryggingakerfinu að hingað til lands gætu komið einstaklingar hvaðanæva að frá löndum sem veittu minni félagslega aðstoð en tryggð væri hér á landi til þess eins að njóta almannatryggingakerfisins og fá aðstoð. Ef full framfærsluuppbót án hlutfallslegs útreiknings yrði greidd ofan á hlutfallslega áunninn lífeyrisrétt, t.d. ofan á lágmarksrétt sem er 3/40 af fullum bótum, mundu allir lífeyrisþegar sem hér búa fá fullar greiðslur frá almannatryggingum algerlega óháð tímalengd búsetu hér á landi. Eingöngu tekjur þeirra gætu þá haft áhrif til lækkunar bótanna. Það gefur augaleið að þá værum við um leið búin að leggja af það réttindaáherslukerfi í almannatryggingum sem hefur verið við lýði frá því almannatryggingum var komið á fót.

Eins og hv. þingmaður nefnir líður að því að almannatrygginganefndin ljúki sinni vinnu. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið er það rétt sem hv. þingmaður segir að það mun ekki liggja fyrir afstaða hjá nefndinni um breytingar hvað þetta varðar. Áfram er þannig byggt á hugmyndafræðinni um réttindaáherslu í samræmi við búsetu.

Í fyrirspurn hv. þingmanns segir jafnframt að tilgangur með lögum um félagslega aðstoð sé að tryggja öllum ákveðna skilgreinda lágmarksframfærslu. Það er hins vegar mat ráðuneytisins að það sé ekki rétt. Um er að ræða sértækan stuðning við ákveðna hópa fólks, þar með taldir lífeyrisþegar, við tilteknar aðstæður. Greiðslurnar eru heimildargreiðslur og ber að leggja á það mat hverju sinni hvort uppfyllt séu skilyrði laganna fyrir þeim greiðslum, m.a. úr frá tekjum einstaklinga.

Ég legg líka áherslu á að því má ekki gleyma að almannatryggingakerfið er eitt nokkurra kerfa er saman mynda íslenska velferðarkerfið. Það er hlutverk sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa sinna í samræmi við aðstæður þeirra. Geti einstaklingar sem hér búa ekki framfært sér með tekjum sínum, þar með talið þeim tekjum sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð og með greiðslum frá þeim lífeyrissjóði sem greitt hefur verið til, geta þeir snúið sér til félagsþjónustunnar í búsetusveitarfélagi sínu og óskað eftir frekari aðstoð.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni sagði ég í fyrri svörum mínum að ég hafði vonast til að nefndin mundi fjalla ítarlegar um það en raunin er en þetta er alla vega niðurstaðan. Áfram er byggt á réttindaáherslukerfinu í almannatryggingum miðað við þau drög að tillögum sem liggja fyrir varðandi nýtt almannatryggingakerfi.