145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

þjónusta við þá sem þarfnast langtímameðferðar í öndunarvél um barkarennu.

380. mál
[16:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær athugasemdir sem hér hafa komið fram. Mér finnst þær lausnamiðaðar og benda á ákveðna þröskulda sem eru í þessum þjónustukerfum. Ég vil þó taka það fram að félagslegi hlutinn í velferðarráðuneytinu og heilbrigðishlutinn tala ágætlega saman, samanber það verkefni sem ég gat um áðan, sem er samstarfsverkefni þessara tveggja aðila varðandi tjáskiptatæknina þar sem hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands kemur að verki í tengslum við framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðra.

Það er sömuleiðis rétt, sem hv. málshefjandi hefur orð á, og snýr að verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga, að veruleikinn er sá að það eru einfaldlega allt of mörg grá svæði þar sem hver aðili getur vísað á annan, vísað frá sér verkum o.s.frv. Það er bara einfaldlega þannig. Ég hef sjálfur mikla reynslu af því að glíma við slík grá svæði, sérstaklega þegar ég var starfandi í sveitarstjórnarmálum á sínum tíma. Þá tókum við yfir málefni fatlaðra og unnum með þau fyrst allra sveitarfélaga og það varð til stórra bóta.

Ég hef lesið tillögu til þingsályktunar sem hér var vitnað til, kynnt mér innihald hennar, veit í raun ekki hvernig það mun ganga. Það er undir þinginu komið, virðulegi forseti, hvernig því máli reiðir af. Ég áskil mér allan rétt til að taka þátt í umræðunni þegar hún verður, vegna þess að það eru ákveðnir þættir þarna sem ég tel að verði að vera liður í stærri skipulagningu og stærri skipulagsbreytingum í verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga en tillagan sjálf gerir ráð fyrir. Ég mun styðja skýrari áherslur varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki.