145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

framkvæmd þingsályktunar um að draga úr plastpokanotkun.

388. mál
[16:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir athugasemdir og umræðu og get ekki annað en verið hjartanlega sammála þeim þingmönnum sem hér hafa talað um að kominn sé tími til að bregðast við. Hafið er okkur einstaklega dýrmætt og það eru skuggalegar fréttir sem við höfum verið að heyra að undanförnu um plastið þar. Það er í haugum í hafinu og komið hefur í ljós að það berst bæði í fisk og fugla. Ég get því ekki verið meira sammála.

Ég hef sagt það úr þessum ræðustól áður að fyrir allmörgum árum, tíu eða fimmtán árum, ferðaðist ég um í Svíþjóð og varð vitni að því að sænskar húsmæður til sveita þvoðu plastpokana og þeir voru þar á snúrum úti. Mér fannst þetta mjög til eftirbreytni og það vakti hugsun í mínu brjósti. Ég er ekki að kalla eftir því. Hraðinn á Íslandi er nú yfirleitt slíkur að ég held að fólk færi tæpast að gera það. En ég held að hægt sé að finna ýmsar aðrar leiðir sem gætu komið í stað þess að nýta plastið í svona miklum mæli. Maður fer sjálfur að hugsa. Ég er farin að hugsa mig betur um varðandi plastpokanotkun, ég finn það á mínu eigin skinni, og ég vona að umræðan smitist yfir í fleiri.

Ég lagði það mikla áherslu á að við reyndum að vinna hratt og vel í þessu að ég ætla að fá þessa skýrslu í hendur á afmælisdaginn minn í sumar.