145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Landsbankinn hefur orðið fyrir harðri gagnrýni úr ýmsum áttum undanfarna daga og mánuði. Mótmæli voru við höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti nú í hádeginu vegna sölu bankans á hlut sínum í Borgun. Yfirskrift mótmælanna var: Lokað vegna spillingar.

Ég ætla ekki að gera þau orð að mínum en þetta sýnir bara reiði fólks vegna margra mála sem hafa snúið að Landsbankanum og hvernig hann framkvæmir sína stefnu. Það má nefna að Landsbankinn hefur lokað á annan tug útibúa á landsbyggðinni á síðustu árum. Nýjustu fréttir af banka allra landsmanna er að fötluðum starfsmanni til 30 ára í Landsbankanum í Reykjanesbæ hefur verið sagt upp störfum vegna hagræðingar. Þar leggst bankinn lágt.

Landsbankinn hafði uppi áform um að byggja nýjar höfuðstöðvar við Hörpu, sem kostað hefði skattgreiðendur að lágmarki 8 milljarða, en dró í land með það vegna mikillar gagnrýni.

Ég spyr: Hver er eiginlega eigendastefna ríkisins varðandi Landsbankann? Getur bankinn bara hagað sér eins og honum sýnist?

Nú liggur fyrir sala á um 30% hlut Landsbankans. Það virðist vera ný einkavæðing fram undan. Búið er að skipta út í Bankasýslunni. Við erum ansi brennd af fyrri einkavæðingu sem var uppleggið að því að hér fór allt á verri veg.

Ég tel að það eigi ekki að líðast hvernig stjórnendur bankans hafa hagað sér í umdeildum málum undanfarið. Stjórnvöld verða að móta skýra eigendastefnu sem kemur í veg fyrir gerræðisleg vinnubrögð. Ríkið verður að móta skýra eigendastefnu þar sem bankinn verður rekinn sem samfélagsbanki að fullu í eigu ríkisins og arðurinn nýtist samfélaginu öllu og honum sé stjórnað með samfélagið í huga en ekki bara eins og einkafyrirtæki með gerræðislegar ákvarðanir eins og verið hefur í svo mörgum málum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna