145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[14:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem mér finnst gríðarlega mikilvæg og vona að sé upphafið að mörgum fleiri umræðum og samræðum á milli þingmanna um þennan risastóra málaflokk. Ég hvet þá sem ekki hafa hlustað á ræðuna sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir flutti áðan til að gera það því að í henni komu fram mikilvægir hlutir sem mér finnst óþarfi að endurtaka af því að nánast allt kom fram sem ég hefði viljað segja í minni ræðu. Mér finnst fagnaðarefni að skynja í þeim umræðum sem átt hafa sér stað á þingi um þennan málaflokk að ég held, svei mér þá, að við séum þverpólitískt sammála um hvað sé að. Það eina sem eftir er og það sem við þurfum að gera er að búa til þverpólitíska þingnefnd sem fer að vinna að því hvernig við ætlum að útfæra okkar sýn, finna út úr því með þjóðinni hver framtíðarstefna okkar í þessum málaflokki er.

Ég er ein af þeim sem eru alltaf að leggja eyrun við og fylgjast með því sem er að gerast í heiminum, e.t.v. dálítið öfgakennt hvað ég reyni mikið að fylgjast með ýmsum skringilegum málefnum sem margir spá ekki mikið í hér heima. Meðal þess sem ég hef fylgst mjög náið með eru áhrif loftslagsbreytinga og í dag deildi ég mjög sorglegri mynd af því hvernig næststærsta vatn Bólivíu er algerlega horfið. Það er farið og aldrei kemur aftur lífríkið sem þar var. Fiskurinn er dáinn og fuglarnir sem sóttu í fæðu í þessu risastóra vatni deyja.

Ég horfði á magnaða heimildarmynd fyrir nokkrum árum um ástandið í Bangladess þar sem skólarnir eru undir vatni stóran hluta ársins. Börnin komast ekki í skólann og hefur verið brugðið á það ráð að vera með kennslu í litlum eða meðalstórum bátum. Það er alveg ljóst að Bangladess mun fara undir vatn þannig að maður hlýtur að spyrja sig: Hvert á fólkið að fara? Hvert á fólkið í Bangladess að fara? Hver tekur á móti því? Við horfum upp á mikla fólksflutninga núna en þeir eiga samt eftir að aukast. Það er sagt að undanfari stríðsins í Sýrlandi hafi verið uppskerubrestur í Sýrlandi og miklir þurrkar þrjú ár í röð. Við vitum það eftir reynslu okkar á Íslandi að fólk fer helst ekki út úr húsi að mótmæla nema það óttist um möguleika til lífs. Þau okkar sem hafa hvatt til mótmæla gegnum tíðina um ýmsa aðra hluti en lífsviðurværi vita að það er erfitt að fá fólk út. Gneistinn sem hóf mótmælabylgjuna í Sýrlandi hefur nú umturnast í einhvern óstjórnlegan hrylling sem virðist ekki sjá fyrir endann á.

Ég var í París og sótti mjög merkilega og skemmtilega ráðstefnu sem var hliðarviðburður á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins. Fyrir vikið, af því að það var þingmannaviðburður með nokkur hundruð þingmönnum frá 90 löndum, voru þingmenn miklu meira áberandi á þessari loftslagsráðstefnu en áður. Ég tel mjög brýnt að við þingmenn tökum okkur meiri ábyrgð og meira vald í þessum málaflokki. Hér getum við unnið í þingunum og það sem er dásamlegt við Alþjóðaþingmannasambandið er að þar er maður ekki að vinna út frá hægri, vinstri eða miðju heldur er maður að vinna út frá málefnunum. Þessir tveir dagar sem Alþjóðaþingmannasambandið stóð fyrir umræðum um þennan málaflokk voru mjög inspírerandi.

Tíminn flýgur mjög hratt á gervihnattaöld, en það er eitt sem mig langaði að benda á og tengdist íslenska skálanum í París. Deben nokkur lávarður hélt alveg stórkostlegt erindi. Hann fer fyrir mjög merkilegri nefnd í Bretlandi sem heitir Committee on Climate Change og er, með leyfi forseta, „a balanced response to the risks of dangerous climate change. Independent, evidence-based advice to the UK Government and Parliament“. Við þurfum eitthvað svona. Þessi nefnd er frjáls og hún leggur til fjárlög áratug fram í framtíðina eða lengur. Við verðum að hætta að hugsa í kjörtímabilum og fara að hugsa til framtíðar.

Að lokum, forseti, við verðum að hverfa frá því að hugsa í lausn eins og loftslagskvóta eða koltvísýringskvóta. Það er árangur að koma með kvóta um loftið sem er nú þegar búið að braska með. Það sem við getum gert í þinginu, og er mjög brýnt, er að nota þetta þverpólitíska svið og tækifæri til að ræða saman. Við tengjumst svo vel almenningi í landinu af því að við erum fulltrúar fyrir hann. Við verðum að fá almenning í landinu með okkur í þessa vegferð. Við gerum þetta ekki með handafli. Við gerum þetta með því að inspírera fólkið til að koma með í þær breytingar sem við verðum að fara í sem þjóð og sem heimsbyggð.