145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. „Við eigum ekki aðra varajörð“, sagði hv. þm. Óttarr Proppé. Ég held að hann hafi hitt alveg naglann á höfuðið. Við eigum ekki varajörð. Þess vegna verðum við að hugsa vel um þá jörð sem við byggjum.

Hér hefur verið rætt um, og fleiri en einn kom inn á það, þvílíkt ævintýri það var, ef svo má taka til orða, í París og söguleg stund á þeim Parísarfundi. Ég vil bæta við að mér finnst að umræður í dag á hv. Alþingi hafi verið söguleg stund. Hér höfum við verið í einn og hálfan klukkutíma að ræða hápólitísk mál, einhver heitustu mál samtímans, bæði á Íslandi sem og erlendum vettvangi. Mál sem snerta efnahagsmál heimsins alls, mál sem eru náttúrlega utanríkismál líka og við gerum það hér undir hatti umhverfismála. Það segir mér að umhverfismál eru að verða þau mál sem snerta hvað flesta, allan almenning, fyrirtæki og heiminn allan. Einnig hefur komið fram í mörgum ágætum ræðum að til að ná sem mestum árangri á þessu sviði eins og víðast hvar annars staðar er að upplýsa og fræða. Það eru svona lykilorð. Sannarlega tek ég undir það.

Ég vil benda á að í upphafsræðu var bent á og vísað í blaðagreinar í Vísi og fleiri miðlum. Með leyfi forseta langar mig til að sýna eina opnu í Morgunblaðinu í dag. Þar eru þrjár fréttir og þær snúa allar að loftslagsmálum, til dæmis: Bráðnun kann að breyta veðurfari. Hér er nefnd áætlun um hvernig auka megi notkun rafmagns í fiskiskipum. Og mjög skemmtileg verðlaun í sambandi við það voru afhent í Hnakkaþoni Háskólans í Reykjavík í gær. Annað sem er ekki gott og snertir okkur líka að ný plöntubaktería hefur greinst með innflutningi á rósum frá Hollandi. Það er því margt sem við sem stýrum umhverfismálum þurfum að hyggja að.

Ég tel að hér hafi komið fram að mikill árangur hafi orðið af ráðstefnunni í París. Fólk er farið að hugsa á öðrum nótum og farið er að hugsa öðruvísi á Alþingi Íslendinga. Við sáum það skýrt í þeirri umræðu sem fór fram hér í dag. Mér þykir það sérlega ánægjulegt að margir þingmenn komu með ágætistillögur, hugmyndir sem hægt væri að vinna að þannig að við gætum gert betur. Það er nákvæmlega það markmið sem við höfum sett okkur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, þ.e. breiddin, og að hafa samband við sem flesta. Strax á þessu nýbyrjaða ári hef ég kallað til mín, er reyndar ekki alveg búin, formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi til að ræða við þá, ekki síst um loftslagsmálin og líka umhverfismál almennt, hvernig við getum unnið saman þannig að við náum settum árangri.

Ég tel að þær hugmyndir sem við settum fram í þessari svokallaðri sóknaráætlun sé mjög gott upplegg. Það er ekki endir alls, þær tillögur, enda er ekki nema mánuður síðan ráðstefnunni lauk í París. Við erum náttúrlega að vinna hörðum höndum að því að undirbyggja þær og hitta félagasamtök, sveitarfélög og (Forseti hringir.) marga af þeim aðilum sem hér hafa verið nefndir (Forseti hringir.) í dag. Þess vegna vil ég enn og aftur þakka fyrir þessa prýðilegu umræðu og ágætar hugmyndir hjá mörgum sem komu hér fram.