145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég segi er þessi réttur þjóðarinnar því miður ekki til staðar eins og er, samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Það þýðir að það er engin raunveruleg, snyrtileg leið til að gera þetta eins og er. Þegar kemur að málefnum eins og makrílmálinu, sem var til umræðu hér fyrir ekki svo löngu síðan, og ESB-umræðunni þá er svo ótvíræður vilji til staðar hjá þjóðinni að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málin. Ég get ekki annað en aðhyllst það að slík mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hef sem þingmaður auðvitað gert þá kröfu.

Svo er hitt auðvitað, það gerist ekkert nema meiri hluti Alþingis ákveði það. Það er sá hluti sem mér þykir mjög óeðlilegur. Þess vegna finnst mér þetta í raun vera erfið spurning.

Þegar kemur hins vegar að þessu tiltekna máli mundi ég alveg treysta mér til að taka þátt í því með öðrum þingmönnum að leggja fram slíka breytingartillögu ef ótvíræður vilji kæmi í ljós hjá þjóðinni. Ég hef séð miklar deilur um þetta mál en ég hef ekki séð ótvíræðan vilja um að málið verði lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá vilji þyrfti að vera mjög ótvíræður að mínu mati. Hann þyrfti að vera mjög skýr vegna þess að það er ekkert formlegt ferli til staðar núna. Allt sem við gerum til að koma málum eins og þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrir utan að standa við gefin kosningaloforð, verður alltaf — ég kann ekki betra orð eða snyrtilegra, virðulegi forseti, ákveðið skítamix. Þá væri það ákveðin redding, lýðræðisleg redding. Það finnst mér í eðli sínu afskaplega óþægileg leið. Ég held það sé engin góð leið til. Það þarf miklu frekar að beita sér fyrir stjórnarskrárbreytingu svo að slíkt þurfi ekki að vera redding heldur geti verið formlegur hluti af löggjafarferlinu, eins og ég aðhyllist svo mikið. Eins og ég segi, það yrði aldrei nein snyrtileg leið að gera þetta að þessu sinni en ég lýsi mig reiðubúinn til að standa að einhverju slíku ef ótvíræður vilji kemur fram hjá þjóðinni.