145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er greinilegt að verslun og verslunarfrelsi er honum mjög hugleikið en ekki umsagnir er varða lýðheilsusjónarmið og heilsu og umhverfi barna. En fyrst honum er svona umhugað um verslunarfrelsið þá spyr ég til baka hvort hann telji það hagkvæmara verslunarumhverfi að hafa fákeppni á markaði um vöru á borð við áfengi, því að það er ekkert annað í kortunum en að hér verði fákeppni um áfengi á 320 þús. manna markaði. Fyrstu tilburðir þeirra sem hafa sýnt áhuga á því að koma inn í þessa verslun eru einmitt þeir verslunaraðilar sem eru stórir, hafa yfirburðastöðu á markaðnum. Ég næ því ekki alveg þessari tengingu við verslunarfrelsið þegar við tölum um markaðsráðandi aðila sem sýnt hafa tilburði til að óska eftir því að versla með áfengi.