145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég veit ekki hvort orðið mér þykir sterkara. Auðvitað viljum við öll ná utan um þetta og það er kannski aðalmálið, einmitt í ljósi þess eins og hv. þingmaður sagði að þetta snýst ekki endilega um hefnd hjá þriðja, fjórða eða fimmta aðila sem heldur áfram að dreifa myndefninu. Það þarf ekki að hafa neitt með hefnd að gera og þess vegna er kannski hætta á því að skilgreiningin geti fest við þetta hugtak. Ég held að allsherjar- og menntamálanefnd þurfi að skoða það og ég kem til með að ræða það, við sitjum hérna að minnsta kosti fjögur úr þeirri nefnd þannig að ég held að við ættum aðeins að hugleiða það.

Það voru síðan IMMI og fleiri aðilar sem komu inn á 2. gr. og töldu að ákvæðið væri ekki nógu skýrt. Ég held að það hafi verið bæði lögreglustjórinn á Suðurnesjum, ríkissaksóknari og fleiri sem töldu að 2. gr. væri ekki nógu skýr, það þyrfti að afmarka hana, hún væri of opin. IMMI bendir á að það megi lesa út úr greininni að þetta eigi ekki bara við um hefndarklám heldur geti þetta átt við ýmislegt annað. Ég spyr hvort þingmaðurinn taki undir að það gæti þurft að forma greinina betur og þrengja hana.

Ég er sammála þingmanninum varðandi skilgreininguna á þolendum og gerendum að hún er of veik í lögunum í dag og þarf að laga það. En varðandi þá hluti sem þarf að skýra þá bendir lögreglustjórinn á Suðurnesjum líka á að það að valda þolanda tjóni eða vanlíðan sé of matskennt og orða þurfi það betur. Ég spyr hvort þingmaðurinn hafi eitthvað velt því fyrir sér hvernig það væri best gert.