145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, eins og kom fram í ræðu minni þá hef ég hugsað það aðeins og borið undir lögfræðing sem er vel kunnug þessum málum og er alveg sammála því að það þurfi að tengja þessar tvær greinar saman því ef maður les 2. gr. eina og sér þá er hún allt of víðfeðm. Hún þarf að skírskota til 1. gr. Það er eitthvað sem mig mundi langa til þess að beina til nefndarinnar og ég get auðvitað í gegnum minn þingmann í þeirri nefnd komið með tillögu að því. Við munum gera það.

Nú man ég ekki hvort það voru fleiri spurningar en mig langar að hnykkja svolítið á því sem hv. þingmaður nefndi einmitt að við þurfum að passa upp á skilgreiningarnar. Við sjáum að lögin í dag ná ekki utan um þetta. Í því sambandi langar mig að lesa aðeins upp úr dómnum sem ég vísaði til áðan sem féll 10. desember í Hæstarétti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við munnlegan málflutning var enn fremur á því byggt að samband ákærða og brotaþola hafi vart verið þess eðlis að þau teljist hafa verið nákomin í skilningi 233. gr. b. almennra hegningarlaga, þótt óumdeilt sé að sambandið hafi varað í rúmlega eitt ár.“

Ég meina, hversu lengi þarf maður að vera í sambandi til þess að geta talist í sambandi og að það sé einhvern veginn skýrt að það sé verið að brjóta á manni, af þeim sem hefur verið í sambandi við mann? Ég skil ekkert í þessu.