145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:40]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ákvað að koma upp í andsvar frekar en ræðu. Mér finnst ekki ástæða til að hafa mjög mörg orð um þetta ágæta frumvarp. Ég kem aðallega hingað upp til þess að fagna því að hv. þingmaður og meðflutningsmenn hennar skuli hafa gert aðra atlögu að því að koma þessu ágæta máli á dagskrá þingsins og til meðferðar. Ég vona sannarlega að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta mál alvörutökum. Ég treysti því satt að segja að það verði gert.

Ég mundi leggja til í fljótheitum að þetta yrði kallað hefndar- og hrelliklám því að það er eiginlega það sem málið snýst um. Þetta er sálrænn ofbeldisglæpur, en þetta er líka kynferðislegt afbrot. Þetta er mjög lúmskur, dulinn og andstyggilegur glæpur sem er til þess fallinn að valda vanlíðan og kúga fólk og hefur auk þess áhrif á líf fólks og getur haft stórkostleg áhrif á framtíð þess ef það verður illa fyrir barðinu á því, m.a. atvinnumöguleika og eitt og annað, því að þetta er skoðanamótandi og niðrandi athæfi.

Hins vegar má velta því fyrir sér hvað samfélagsmiðlarnir hafa miklu breytt í okkar veruleika. Slíkt hefndar- og hrelliklám hefur aukist mjög mikið á síðustu árum einmitt vegna tilkomu samfélagsmiðlanna. Þar er líka farið að bera á annars konar hefndar- og hrelliklámi, sem er beinlínis í orðræðu. Mér finnst að við megum velta því fyrir okkur.

Það væri fróðlegt að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess hvort ástæða væri til að hugleiða það líka með tilliti til refsilöggjafar hvernig menn haga sér í orðræðu því að það er hægt að klæmast með öðrum hætti en myndum.