145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og tek undir með hv. þingmanni varðandi það sem hún nefndi seinast, þ.e. meiðandi ummæli, en þá erum við kannski komin út í eitthvað annað. Ég er alveg sammála því að einhverju leyti þó að við eigum að passa upp á tjáningarfrelsið og allt það. Það er ofboðslega skrýtið að það sé í lagi að vera endalaust dónalegur og leiðinlegur og meiðandi. Mér þykir það skrýtinn veruleiki, en hann er eins og hann er.

Það er að færast í vöxt, að mér finnst, að hávær hópur standi fyrir leiðinlegri umræðu sem getur verið meiðandi og maður veit ekki hver tilgangurinn er með. Það þarf einhvern veginn að ná utan um hana, helst með fræðslu og kærleika, en ég veit ekki alveg hvort hann nái inn í kommentakerfi fjölmiðlanna eða hvar sem hún er. Ég veit það ekki.

Ég þakka kærlega fyrir ábendinguna um þetta nýja nafn. Það hljómar ágætlega fyrir mér, hefndar- og hrelliklám. Ef það skýrir betur hvað við er átt finnst mér sjálfsagt að við bætum því við.