145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur góðar óskir og mikinn stuðning sem ég finn með málinu. Það veitir mér von að þingmenn allra flokka vilja komast fyrir þennan nýja veruleika og í rauninni nýju glæpi og ofbeldi, sérstaklega sem beinist gagnvart konum, mjög oft óhörðnuðum unglingsstelpum og auðvitað drengjum líka.

Það sem við tókum eftir á öllu síðastliðnu ári var að samfélagið allt var algjörlega komið upp í kok af þessu. Það sem var svo fallegt og gerðist í hreyfingunni „Free the nipple“, eða brjóstabyltingunni, ef við viljum kallað hana það frekar, var að ungt fólk þjappaði sér saman og sagði einfaldlega: Við ætlum ekki að taka þessa skömm á okkur og við ætlum að aðstoða þá og þær sem er verið að kúga svona og breyta þessu og láta skömmina vera á hinn veginn. Það var náttúrlega gríðarlega mikilvægt.

Mér finnst að við þurfum líka að hafa í lögum einhver refsiákvæði svo að við náum þeim sem gera þetta og hegnum fyrir það á þann veg sem okkur þykir mikilvægt og skynsamlegt. Internetið er erfitt og allt það í sambandi við að ná utan um svona hluti, en við getum ekki bara „gúdderað“ að á netinu sé einhver veruleiki sem við getum ekki haft nein afskipti af eða sett neinar leikreglur. Það gengur ekki.