145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að dvelja lengi við þetta mál. Ég er afskaplega fegin að það er komið fram aftur og eiginlega löngu tímabært að þingið taki með einhverjum hætti utan um þetta athæfi í ljósi þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir í rafrænum heimi. Það er afar mikilvægt að við sendum út þau skilaboð að það sé algerlega óásættanlegt með öllu og refsivert að dreifa persónulegu myndefni án þess að samþykki þess aðila sem verið er að birta myndir af liggi fyrir. Ég held að það sé að minnsta kosti best að gera það með lögum til þess að reyna að hafa einhvern ramma utan um það.

Ég hef í starfi mínu áður en ég kom inn á þing þurft að kljást aðeins við svona mál með ungar stúlkur, það var meira að segja fyrir allnokkrum árum sem það hófst af einhverri alvöru. Það er sérkennileg staða að standa uppi með 13, 14 ára stelpu sem er að senda myndir af sér berbrjósta til meints kærasta, myndir sem eru svo í dreifingu um allar koppagrundir. Þá komum við aftur að því sem við hv. þingmaður vorum að tala um áðan, hvort þetta ætti að heita hefndarklám, því þetta byrjar kannski ekki einu sinni sem hefnd í rauninni heldur bara út af siðleysi held ég, algjöru siðleysi, vegna þess að þarna erum við að tala um stúlkur sem eru kannski spenntar fyrir strák og eru ekkert endilega að pæla í því að það að senda mynd geti haft þessar afleiðingar og það eru þá oftast einhverjir eldri sem eru að misnota þetta.

Mér finnst mjög mikilvægt að við veltum því upp í umræðunni og umfjölluninni í allsherjar- og menntamálanefnd með hvaða hætti við ætlum að halda áfram að fræða. Ætlum við að láta skólunum það eftir? Við erum í læsisátaki. Ætlum við að fara í eitthvert svona átak? Þetta er ekki síður mikilvægt, hvort sem það er í gegnum skólana eða í formi átaks eins og brjóstabyltingin var og allt það sem hér hefur verið rætt í þingsölum, þegar ungar stúlkur og ungt fólk er að reyna að skila skömminni. Við þurfum að reyna að ná utan um það hvernig við sjáum því best fyrir komið að ná til þess hóps sem við þurfum að ná til. Það eru þá í fyrsta lagi ungar stúlkur, oftast, en það er auðvitað ekki hægt að alhæfa í því, það eru örugglega ungir drengir líka, en svo á þetta ekki bara við um ungt fólk. En ef við reynum að ná til þessa hóps til að reyna að koma í veg fyrir myndbirtingar eða að þær verði sem allra fæstar, hvernig við gerum það öðruvísi en í gegnum skólakerfið? Eins og við sáum með brjóstabyltinguna og slíkar herferðir sem verið hafa í samfélaginu þá hafa þær klárlega skilað miklu og atriðið sem Hagaskóli var með skilar auðvitað miklu þar sem ungar stúlkur tala við samborgara sína og systur og bræður í þessu samhengi, en þetta þarf samt að vera markvisst að mínu viti.

Varðandi frumvarpið sem slíkt þá er ég sammála því sem kom fram í andsvörum áðan að þetta er líka sálrænt að svo mörgu leyti og getur haft áhrif fram í tímann. Það er líka hægt að niðurlægja með orðum eins og hér var nefnt áðan, kynferðislegt útlit viðkomandi. Það er hægt að draga það mjög mikið niður í orðum og það getur farið víða. Það getur verið mjög meiðandi. Það þarf ekki endilega að vera myndbirting. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vita hvort við getum náð utan um í þessu samhengi. Ég er líka sammála því að mér finnst ótrúlegur dómurinn sem hér var nefndur áðan, að það skuli virkilega vera þannig að árssamband teljist ekki hafa verið náið. Maður spyr sig. Hversu mörg þurfa árin eiginlega að vera til þess að sambandið geti talist náið þegar um svona lagað er að ræða?

Ég var búin að fara í gegnum þær umsagnir sem bárust vegna málsins þegar það var lagt fram á síðasta þingi. Þeim ber nokkuð saman, eins og ég kom inn á áðan, um að það þurfi að taka betur utan um báðar greinar frumvarpsins, þétta þær svolítið. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum veltir því upp þegar um er að ræða börn og ungmenni undir 18 ára aldri, hvort rétta leiðin til að taka á slíkum málum sé í gegnum kynferðisbrotaferlið og telur að það geti verið þungbært fyrir báða aðila. Það verður áhugavert að fá þá aðila á fund og ræða þessi mál aðeins og heyra hvaða leiðir þeir telja heppilegri til þess að sporna við þessu, aðrar en fræðsluna sem við erum öll sammála um að þurfi. Lögreglustjórinn tekur einmitt dæmi varðandi 1. gr., og bendir á ef ljósmynd er send í gegnum Snapchat sem alla jafna á að eyðast á 10 sekúndum, er auðvitað hægt að vista hana. Erum við þá að tala um að myndin hafi verið send með samþykki viðkomandi eða er sá sem tekur á móti myndinni farinn út fyrir það samþykki ef hann vistar myndina, jafnvel þótt hann eigi hana bara á sínum síma og sé ekkert endilega að dreifa henni? Vissulega er Snapchat forritið sett upp með því hugarfari að myndin eyðist. Embættið veltir því upp að ef sá sem fær myndina ákveður að vista hana og eiga hana, hvort hann sé þá að fara út fyrir ætlað samþykki. Það eru svona spurningar sem leita á hugann og vert að við veltum upp í samtali okkar í nefndinni.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum kemur líka inn á það að breyta ljósmyndum eða öðru slíku efni með því að skeyta saman myndum af ólíkum aðilum og senda út á netið sem mynd af tilteknum aðila. Það er náttúrlega verið að lítilsvirða viðkomandi með því „að búa eitthvað til úr honum“ á netinu. Þetta eru ábendingar sem mér þótti gott að lesa, eftir því sem fleiri koma að málinu þá vakna auðvitað spurningar af því maður er alltaf að hugsa um hvernig megi klára málið. Ég held að það hafi verið Barnaheill sem hafði áhyggjur af því að erfitt yrði að ná utan um þetta. Mér finnst það eiginlega vera aðalmál okkar í nefndinni, að reyna að ná utan um þetta, því ég vil svo sannarlega að málið klárist.

Ríkissaksóknari kom með ábendingar um málið síðast, en þá var einmitt verið að bíða eftir tilteknum dómum. Mér fannst aðeins skína í það að ríkissaksóknari teldi að núgildandi ákvæði næði utan um þetta, sem við sjáum í dag að er alls ekki. Það verður áhugavert að sjá þann vinkil, hvernig embættið tekur á þessu núna.

Ríkissaksóknari bendir á að nauðsynlegt sé að kanna með nákvæmari hætti lagaumhverfi og dómaframkvæmd í nágrannalöndum okkar áður en ákvörðun verður tekin um breytingu á refsiákvæðum okkar. Mér þætti það súrt ef ekki væri hreinlega búið að skoða það, en líklega er það ekki þannig af því að málið fékk ekki framgang. Það hefði flýtt svolítið fyrir ferlinu ef það á að hengja sig í eitthvað slíkt. Það er ekki búið að kanna það nú þegar. En við setjum auðvitað undir okkur hausinn og vonum að hægt verði að afgreiða málið á þessu þingi. Það er jú búið að fá þennan legutíma og því ætti að vera hægt að gera það. Málið fer til nefndar og verður vonandi tekið fyrir í næstu viku og fer út til umsagnar aftur, og þá ættum við að geta tekið það fyrir, sýnist mér, í þriðju viku febrúar eftir kjördæmaviku og tekið inn gesti. Ég vona að málið fái að koma á dagskrá, verði ekki ýtt til hliðar vegna ríkisstjórnarmála sem fara kannski að koma inn, þannig að ég vona að formaður nefndarinnar og meiri hlutinn sjái hag í því að það fái framgang.

Varðandi friðhelgi einkalífsins sem ég kom inn á áðan þá bendir IMMI á að þrátt fyrir að sú stofnun standi vörð um tjáningar- og upplýsingafrelsi þá sé friðhelgi einkalífsins líka mikilvægt og það er það sem reynt er að ná utan um í frumvarpinu. En þeir benda líka á 2. gr., hún sé of víðtæk, og við þurfum að reyna að þrengja hana svolítið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Mér finnst þetta gott mál. Spurningar hafa vaknað og ég vona að við náum utan um þetta og náum að afgreiða málið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.