145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka umræðunni með því að taka stuttlega til máls og byrja á því að þakka öllum þeim þingmönnum sem hafa setið hér og hlustað og greinilega kynnt sér málið mjög vel. Þeir eru greinilega allir af vilja gerðir að koma málinu í gegn og vilja margir hverjir líka, eins og hv. þingmaður sem var pontu á undan mér, fara vel yfir þetta og bæta um betur. Það er vel. Ég vænti þess og treysti því að nefndin taki þetta mál fyrir og bæti það og breyti ef þess þarf. Það er svo sannarlega það sem við eigum að gera í nefndum. Ég vænti mikils af þeirri vinnu.

Veruleikinn er, eins og við vitum, að hefndarklám er vaxandi vandamál í upplýsingasamfélagi nútímans. Þetta frumvarp er lagt fram til að sporna gegn því. Við þurfum að færa ábyrgð af birtingu og dreifingu hefndarkláms yfir á gerendur og við þurfum að gera athæfið refsivert. Þetta er alvarlegt mál. Þetta er ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, sem beinist oftast gegn ungu fólki, oft gegn konum og þá sérstaklega ungum stúlkum.

Samhliða því þurfum við að fræða sérstaklega ungt fólk og börn um alvarleika þessara brota þannig að þegar þau fá senda mynd eða myndefni eða sjá það á netinu þá dreifi þau því ekki og setji á netið því að afleiðingarnar geta verið alvarlegar. Við þurfum að koma fólki í skilning um hversu þungbært það er fyrir þolendur þessara glæpa að lifa með því jafnvel árum saman að hafa mynd eða myndefni af sér lifandi sjálfstæðu lífi á netinu. Þetta getur haft gríðarlegar afleiðingar til lengri tíma fyrir fólk.

Núverandi löggjöf nær ekki yfir hefndarklám. Það er orðið ljóst með dómum sem hafa fallið. Nýjasti dómur sem féll 10. desember í Hæstarétti sýnir að ákvæði 233. gr. b hefur þröngan skilning á þolanda og geranda og er ekki fullnægjandi. Þess vegna leggja allir þingmenn í Bjartri framtíð fram þetta frumvarp. Við vonum svo sannarlega að þolendur þessara glæpa þurfi ekki að bíða í mörg ár eftir því að það verði að lögum á Íslandi.