145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kíkti á mjög áhugaverðan fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík núna í vikunni þar sem David M. Clark, prófessor við Háskólann í Oxford, talaði um geðheilbrigðisstefnu þarlendra stjórnvalda. Þetta var klukktutímafyrirlestur sem hélt athygli manns allan tímann og salurinn var þétt setinn. Ég vona innilega að það sem kom fram þarna muni skila sér inn í íslenska heilbrigðiskerfið.

Reyndar hefur hæstv. heilbrigðisráðherra talað í þeim anda að hann geri sér grein fyrir því að sálfræðimeðferðir, við erum að tala um meðferðir við þunglyndi, kvíða og öðru slíku, geti hjálpað mikið og jafnvel meira en annað.

David M. Clark sagði frá verkefnum sem bresk stjórnvöld fóru í. Þau buðu upp á sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða, sjúklingum að kostnaðarlausu, og tóku málið mjög föstum tökum. Það er eftirfylgni, árangursmat og mikil áhersla lögð á að meta árangurinn eftir meðferð, að fólk fari ekki bara aftur út í samfélagið eftir þrjá tíma og enginn viti í rauninni hvað verður svo.

Hann sýndi líka fram á kostnaðinn sem þjóðfélagið ber af því þegar sífellt fleiri glíma við geðræn vandamál og við tæklum þau ekki eins og önnur vandamál. Ef maður fer upp á slysó með brotinn handlegg fær maður strax einhverja bót sinna meina en þegar geðræn vandamál eru annars vegar er hægt að flækjast um í kerfinu og ef fólk þarf að leita til sálfræðings er það oftar en ekki bara á kostnað sjúklinganna sjálfra.

Mér finnst við vera (Forseti hringir.) mjög eftir á. Ég veit að geðheilbrigðisstefna var samþykkt hér og ég bind miklar vonir við hana en mér finnst að við ættum að ræða þessi mál frekar í þinginu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna