145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í skýrslunni Hagvöxtur landshluta 2009–2013 er með fyrstu setningum, með leyfi forseta:

„Í fyrsta sinn frá því að farið var að taka saman tölur um hagvöxt eftir landshlutum fyrir tæpum áratug er hlutur höfuðborgarsvæðisins í landsframleiðslu meiri en 70%. Framleiðsla jókst meira á höfuðborgarsvæðinu en utan þess frá 2009 til 2013.“

Þá segir á sömu blaðsíðu:

„Mest dróst framleiðsla saman á Suðurnesjum og á Vestfjörðum frá 2009–2013, eða um 11–12%. Einkum virðist vera ástæða til þess að hafa áhyggjur af þróun mála á Vestfjörðum. Samtals hækkuðu launagreiðslur þar 10% minna en laun á landinu öllu. Á sama tíma fækkaði fólki á Vestfjörðum um 5%.“

Sjávarútvegur er enn þá stærsta atvinnugreinin á Vestfjörðum en samdráttur í honum virðist vera útskýring á falli framleiðslu á Vestfjörðum síðastliðinna ára. Byggingar, fjármálaþjónusta og skyldar greinar hafa einnig dregist saman. Meginatvinnugreinin dregst saman. Hverjar eru afleiðingarnar? Byggingum fækkar, fólk flytur burt og hagvöxtur hrapar. Á sama tíma eru lítil sveitarfélög eins og til dæmis Súðavíkurhreppur að berjast af öllu afli fyrir því að koma fram með atvinnu og uppbyggingu í hreppnum, berjast fyrir því að fá okkur sem hérna eigum sæti til að leggja okkar af mörkum til að aðstoða, koma á öruggri raforku, góðum samgöngum, renna sterkari stoðum undir samfélagið sem kallar á aðstoð, þurfa ekki lengur að leita að lausnum. Þau eru komin með lausnina en vantar okkar lóð á vogarskálina til að láta það ganga. Virkjunarmöguleikar á Vestfjörðum eru margir og fólk vill fá svör. Munum við ganga með þeim þau skref sem þarf til að koma á öruggri raforku til að þau geti snúið sér að uppbyggingu? Ætlum við að koma að Vestfjarðavegi 60 um Teigsskóg, Dýrafjarðargöngum og Álftafjarðargöngum? Ef okkur lægi eins mikið á að koma á styrku síma- og netsambandi um land allt eins og okkur lá á að taka niður senda vegna NMT-símanna sálugu — hvar ætlum við að leggja landsbyggðinni lið?


Efnisorð er vísa í ræðuna