145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að vitna í skýrslu sem Bændasamtökin sendu frá sér nýlega. Hún kemur við matvöruverð og styður niðurstöðu skýrslunnar sem Samkeppniseftirlitið sendi frá sér í mars á síðasta ári um dagvörumarkaðinn. Þar koma fram vísbendingar um að álagning innlendra birgja og dagvöruverslana á innfluttar vörur hafi hækkað. Við þessa könnun kemur í ljós að þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir skila sér ekki til neytenda.

Þetta er eitt af því sem við þingmenn Vinstri grænna ræddum mjög mikið þegar virðisaukaskatturinn var hækkaður, m.a. á matvæli, sem Framsóknarflokkurinn lét kaupa sig til. Sykurskatturinn var felldur niður og matarskatturinn hækkaður. Það áttu að koma fram mótvægisaðgerðir. Hvernig birtast þær, virðulegu og hv. þingmenn Framsóknarflokksins? Hvað þykir ykkur um þessa niðurstöðu? Mótvægisaðgerðirnar gengu meira og minna allar til baka þegar barnabætur og viðmið og annað slíkt var lækkað.

Ég spyr: Hvar eru öll heimsmetin sem hæstv. forsætisráðherra hefur haldið fram þegar kemur að neytendum þessa lands? Það er ekki eðlilegt að þegar við erum að margfalda innflutning á til dæmis nautakjöti, magntollar eru að lækka sem og heimsmarkaðsverð, hækki samt nautahakk um 15%. Þetta er auðvitað ekki eðlilegt og að þessu þarf að huga.

Eins og við vitum eru líka skýr merki um fákeppni á matvörumarkaðnum á Íslandi þar sem arðsemi eigin fjár stærstu fyrirtækjanna er 35–40% samanborið við 11–13% í Bandaríkjunum og Evrópu. Ísland er í flokki með Noregi þegar kemur til dæmis að minni notkun sýklalyfja í landbúnaði og við eigum að styrkja, finnst mér, og styðja betur við innlenda framleiðslu frekar en að tala hana niður (Forseti hringir.) eins og kemur vonandi fram í umræðunni á eftir að verður lagt til. Það er eitt af því sem getur haft áhrif á verðlag matvöru á Íslandi og það þurfum við að styrkja en ég spyr, hv. þingmenn Framsóknarflokksins: Eruð þið sátt? Teljið þið að mótvægisaðgerðirnar hafi skilað sér?


Efnisorð er vísa í ræðuna