145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Utanríkisviðskipti Íslendinga eru komin í almenna umræðu vegna þvingunaraðgerða Rússa gagnvart Íslendingum. Menn velta fyrir sér nýjum mörkuðum í því samhengi og möguleikum okkar þar, en í fríverslunarsamningum okkar felast mörg tækifæri á því sviði.

Fríverslunarsamningur Íslendinga við Kína gekk í gildi árið 2013 en Kína er risastór markaður og þar bíða mörg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Útflutningur þangað dróst lítillega saman á milli áranna 2013 og 2014 vegna loðnubrests en hefur síðan aukist og var 9 milljarðar árið 2015 að frátöldum desembermánuði. Hann hefur ekki verið meiri síðan 2008 en þá var útflutningur til Kína 10 milljarðar kr.

Nú er unnið að því að fá viðurkenningu fyrir íslenskt lambakjöt inn á kínverskan markað. Kínverjar hafa fengið svör við spurningum sínum er það varðar og nú eru þeir að skipuleggja ferð hingað til lands til að gera úttekt á aðstæðum áður en þeir ákveða hvort veita eigi heimild fyrir innflutningi á íslensku lambakjöti til Kína.

Varðandi stöðu nýrra fríverslunarsamninga er á þingmálalista ríkisstjórnar tillaga til þingsályktunar um fullgildingu bókunar að aðild lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna. Í því samstarfi felast einnig aukin tækifæri til útflutnings fyrir íslensk fyrirtæki til dæmis á sjávarafurðum og kjöti.

Samningaviðræður EFTA og Víetnam hafa gengið vel og menn vonast til að þeim ljúki á þessu ári og lítið stendur þar út af.

Íslensk fyrirtæki hafa nú aðgang að viðamiklu neti fríverslunarsamninga sem tekur til alls 69 landa í gegnum EFTA-sáttmálann, EES-samninginn, þá 25 fríverslunarsamninga sem EFTA-ríkin hafa gert og tvíhliða fríverslunarsamninga Íslands við Færeyjar, Grænland og Kína, eins og áður segir.

Fríverslun er hnattrænt fjöregg og Íslendingar hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar við að treysta bönd milli manna og þjóða með viðskiptum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna