145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og kunnugt er er til umfjöllunar í velferðarnefnd frumvarp um húsnæðismál sem lengi hafði verið beðið eftir. Nú eru að berast umsagnir og hafa borist umsagnir við þessi mál og eins og þær bera með sér eru fjölmörg stór álitamál og spurningar sem tengjast þeim málum og það alveg eins frá aðilum sem eru þeim velviljaðir og styðja meginmarkmið frumvarpanna, en spurningin er hvort þeim verður náð með þeim umbúnaði sem þarna er á ferðinni.

Í umfjöllun um málið, sem auðvitað þarf að vera ítarleg, hefur líka komið fram að jafnvel þótt Alþingi takist að afgreiða þetta og gera að lögum á næstu vikum eða mánuðum mun þurfa umtalsverðan tíma til að koma þessu af stað í formi þess að semja þarf viðamiklar reglugerðir og útfæra þetta að verulegu leyti í framkvæmd í reglugerðum þar sem frumvörpin eru fyrst og fremst mjög almennur rammi. En öllu alvarlegra er að þetta teiknar upp þær aðstæður að vegna þess að í fjárlögum þessa árs eru engar heimildir til að reiða fram fjármuni til að greiða niður vaxtakostnað vegna lána í því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði undanfarin ár, þ.e. að hægt sé að byggja félagslegar leiguíbúðir með stuðningi frá hinu opinbera í formi vaxtaniðurgreiðslna, gæti niðurstaðan af þessu og því að það eru augljóslega einhver ár þangað til fyrstu íbúðirnar kæmu í gagnið í hinu nýja almenna íbúðakerfi orðið alger andstaða tilgangsins og markmiðanna með frumvörpunum, þ.e. að það komi gat, það verði stopp í byggingu nýrra félagslegra leiguíbúða í eitt ár, eitt og hálft ár, tvö ár, nema að leyst verði úr þessari stöðu. Ég fæ ekki séð hvernig hægt er að gera það nema taka heimildir inn í fjárlög eða fjáraukalög þessa árs til þess að halda áfram að styðja leigufélög eins og Félagsstofnun stúdenta, (Forseti hringir.) Félagsbústaði eða aðra slíka, sem vilja halda áfram að byggja leiguhúsnæði (Forseti hringir.) í formi vaxtaniðurgreiðsluleiðarinnar (Forseti hringir.) þangað til hitt kerfið kemst af stað.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna