145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Siðferðisbrestir í íslensku samfélagi eru sífellt meira áberandi og nánast áþreifanlegir í daglegu lífi okkar. Siðferði í stjórnkerfinu hrakar samkvæmt mælingum og þar ganga fremstir í flokki stjórnendur fjármálastofnana. Sala Arion banka og hlutabréfa í Símanum eru ljót dæmi um það, sem yfirmenn þeirra fyrirtækja komust upp með. Landsbankinn er vikum og mánuðum saman í umræðunni vegna viðskipta sem hann fremur á bak við luktar dyr og þess er gætt að ekki fáist sem besta mögulega verðið fyrir eignir bankans, eignir okkar landsmanna, eins og dæmin um Borgun sanna.

Yfirmenn Landsbankans hafa ekki axlað ábyrgð á ófaglegum vinnubrögðum sem sköðuðu bankann, sem kominn er í ruslflokk í augum fólksins í landinu. En bankinn þarf að svara til að bæta fyrir axarsköftin sem gerð hafa verið í stjórn bankans. Hvert líta yfirmenn bankans þá? Jú, þeir ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Í útibúi Landsbankans í Reykjanesbæ, sem áður var Sparisjóður Keflavíkur, vann dugmikill maður í 30 ár. Hann er spastískur og metinn 75% öryrki. Hann er giftur og hefur fyrir tveimur börnum að sjá. Hann er hvers manns hugljúfi okkar viðskiptavinanna sem fannst lipurð hans og þjónustulund við brugðið í hvert sinn sem við komum að þjónustuborðinu og litum við hjá honum. En hann lenti í bílslysi síðastliðið haust þegar ekið var á hann. Hann var nýlega kominn aftur til vinnu þegar yfirmenn bankans tilkynntu að annaðhvort skrifaði hann undir starfslokasamning eða yrði að öðrum kosti sagt upp störfum. Tveir vondir kostir, grimmdin algjör og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins engin. Það er svona framkoma yfirmanna Landsbankans, að höggva í okkar veikasta bróður, sem ofbýður fólki. Miskunnarleysið er algjört.

Ég sendi þá spurningu til stjórnenda Landsbankans hvort ekki standi skipulagsbreytingar fyrir dyrum í efstu lögum bankans. Þar sitja stjórnendur sem rúnir eru trausti almennings og stór hluti starfsmanna upplifir vanlíðan við störf sín alla daga. Virðulegur forseti. Ég hélt að óttastjórn væri liðin tíð.


Efnisorð er vísa í ræðuna