145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í umræðum um störf þingsins að þeir sem voru í forustu í síðustu ríkisstjórn töluðu um mikilvægi þess að forgangsraða í þágu heilbrigðismála. Ég fagna því. Ég hef barist fyrir því frá því að ég byrjaði í stjórnmálum og það er svo ánægjulegt að vera í ríkisstjórnarmeirihluta sem ekki hefur bara talað um það heldur líka gert það. Ég fagna því ef vinstri flokkarnir eru komnir á þann stað því að á síðasta kjörtímabili var sparað hlutfallslega meira í heilbrigðismálunum, eins og allir vita sem vilja skoða málin, og eins var fjölda starfsmanna sagt upp. Það kemur berlega fram í svari við fyrirspurn sem ég bar upp við þáverandi hæstv. fjármálaráðherra og finna má í þingskjölum. Sömuleiðis var dregið mikið úr fjárfestingum. Hins vegar var bætt í umhverfismálin og utanríkismálin og eftirlitsstofnanir voru algerlega sér á parti.

Ef það er þannig að það er raunverulegur vilji til að forgangsraða í þennan málaflokk eru hlutirnir búnir að breytast í grundvallaratriðum hér á hv. Alþingi og ég fagna því. Ég vil hins vegar benda á að það skiptir máli í þessum málaflokki eins og öllum öðrum, ef menn tala út frá staðreyndum en ekki einhverju öðru, að fjármunir eru ekki það sama og árangur. Við ættum að setja okkur það markmið að vera áfram í allra fremstu röð. Og þar sem eru vankantar og verkefni, sem sannarlega eru til staðar á þessu sviði, ættum við að setja okkur markmið um árangur; styttingu biðlista, aukna þjónustu og svo framvegis. Ef komin er pólitísk samstaða um það á hv. Alþingi eru það ákveðin tímamót sem ég fagna. Ég hlakka til að vinna með (Forseti hringir.) hv. þingmönnum úr öllum flokkum við að ná þeim árangri í nánustu framtíð.


Efnisorð er vísa í ræðuna