145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:41]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga með síðari breytingum. Frumvarpið er endurflutt. Það var lagt fram á 144. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Það er nú lagt fram að nýju með nokkrum breytingum á 2. gr. í samræmi við nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar eftir ítarlegt umsagnarferli á síðasta þingi. [Kliður í þingsal.] Markmið frumvarpsins er hins vegar óbreytt.

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)

Það er að skýra nánar tiltekin ákvæði laganna um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að ráðherra gefi árlega út leiðbeinandi reglur um fjárhagsaðstoð þar sem m.a. skuli kveðið á um viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar. Slíkar reglur skulu settar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Markmiðið með ákvæði þessu er að tryggja betra samræmi milli reglna sveitarfélaga. Því er lagt til að ráðherra verði falið að útbúa reglur til leiðbeiningar fyrir sveitarstjórnir þegar þær setja sér reglur um fjárhagsaðstoð. Þá er sérstaklega tekið fram að í slíkum leiðbeiningum skuli koma fram viðmiðunarfjárhæðir fyrir sveitarfélög um grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar.

Fram til ársins 2011 gaf ráðuneytið árlega út viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar á grundvelli samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga. Síðan því var hætt hefur borið á að munur milli sveitarfélaga sé að aukast að þessu leyti. Þrátt fyrir að sveitarfélögin hafi ákveðið sjálfræði um endanlega fjárhæð fjárhagsaðstoðar verður hún samt að ná því markmiði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að tryggja félagslegt og fjárhagslegt öryggi íbúa sveitarfélagsins, samanber 1. gr. laganna. Tel ég því mikilvægt að ráðherra verði falið að gefa út árlegar viðmiðunarfjárhæðir sem sveitarfélög geta litið til við ákvörðun fjárhæðar í sínum reglum.

Hins vegar er lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að setja í reglur sínar skilyrði um virkni þeirra sem eru vinnufærir en fá fjárhagsaðstoð þar sem þeir hafa enn ekki fengið störf og eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum eða hafa fullnýtt bótarétt sinn. Meginmarkmið með þessum heimildum er að virkja atvinnuleitendur, sem hafa fullnýtt bótarétt sinn, til þátttöku á ný á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni.

Frumvarpinu er einnig ætlað að taka af skarið um inntak heimilda til að skilyrða fjárhagsaðstoð en nokkur óvissa hefur verið uppi um það efni, einkum þar sem núgildandi lagaákvæði eru komin til ára sinna.

Þá skapar frumvarpið lagagrundvöll undir samstarf milli Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaganna um mat á vinnufærni og þjónustu við atvinnuleitendur sem njóta fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögum.

Það er von mín að frumvarpið muni leiða til þess að bæta þjónustu og stuðning við þá atvinnuleitendur sem fullnýtt hafa rétt sinn innan atvinnuleysisbótakerfisins og þá muni það leiða til þess að fleiri þeirra munu aftur komast á vinnumarkað og draga úr óvinnufærni vegna langtímaatvinnuleysis.

Í frumvarpinu er lagt til að fram skuli fara mat á vinnufærni umsækjanda áður en kemur til skoðunar hvort binda eigi fjárhagsaðstoð skilyrðum um virkni. Tekið er fram hvað geti talist til virkrar atvinnuleitar en þar var höfð hliðsjón af sams konar kröfum og gerðar eru til atvinnuleitenda innan atvinnuleysistryggingakerfisins svo að þeir teljist vera í virkri atvinnuleit.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einungis verði heimilt að kveða á um skerðingu mánaðarlegrar grunnfjárhagsaðstoðar félagsþjónustu sveitarfélaga í tvo mánuði í senn. Hins vegar eru ekki sett takmörk á það hversu oft sami einstaklingur geti sætt skerðingum, en gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi fari aftur í mat á vinnufærni sé það gert oftar en tvisvar.

Þá er lagt til að ekki verði heimilt að skerða mánaðarlega grunnfjárhagsaðstoð sem hlutaðeigandi á rétt á samkvæmt reglum sveitarfélagsins um meira en helming. Njóti hjón eða sambúðarfólk sameiginlegrar fjárhagsaðstoðar skal þó gæta þess að einungis fjárhagsaðstoð þess maka sem ekki uppfyllir lengur skilyrði samkvæmt ákvæði þessu skerðist. Þegar um er að ræða svokallaðar heimildargreiðslur vegna sérstakra aðstæðna er gert ráð fyrir að heimilt sé að fella slíkar greiðslur niður í allt að sex mánuði í senn. Hins vegar er lagt til, sem ég tel vera mjög mikilvægt, að óheimilt verði að skilyrða heimildargreiðslur sem koma til vegna aðstæðna barna, svo sem greiðslu fyrir tómstundir eða skólamáltíðir og þar sem reglur sveitarfélags taka framfærslu barna inn í útreikning grunnfjárhæðar.

Frumvarpið er unnið í samvinnu og samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Einnig fór fram mikil vinna í velferðarnefnd þingsins þegar frumvarpið var lagt fram síðast og bárust umsagnir frá fjölmörgum aðilum. Voru þær hafðar til hliðsjónar áður en frumvarpið var lagt fram í þetta skipti.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frumvarps. Það er von mín að með þessum breytingum getum við náð betra samræmi í framkvæmd fjárhagsaðstoðar milli sveitarfélaga og að sveitarfélögin fái skýran ramma utan um sínar heimildir hvað varðar að virkja hóp atvinnuleitenda sem eru í hvað mestri hættu á að falla varanlega út af vinnumarkaði vegna langtímaatvinnuleysis.

Ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.