145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja líkt og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gerði í upphafi andsvars síns að það hryggir mig að við séum aftur komin með þetta mál hingað á okkar borð.

Það eru atriði sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í. Mig langar þó að byrja á að segja að mér finnst dapurlegt að ekki hafi verið fengið lögfræðiálit um hvort þessi lagabreyting standist til að mynda lög og stjórnarskrá. Þetta er eitt af því sem 1. minni hluti hv. velferðarnefndar gerði að dálítið stóru atriði í nefndaráliti sínu á síðasta ári og ég hefði talið að ráðherra ætti að vera í lófa lagið að fara í þá vinnu. Ég verð því að segja að mér finnst það frekar aumt að vísa í að mikilvægt sé að velferðarnefnd fari „grundigt“ í þá vinnu. Hún gerði það svo sannarlega á síðasta ári og hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að þarna þyrfti að vinna mun betur.

En svo ég beini spurningu til hæstv. ráðherra þá segir í samantekt niðurstaðna með frumvarpinu að að mati velferðarráðuneytisins muni frumvarpið hafa jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaganna. Mig langar að spyrja: Var ekki reynt að leggja neitt mat á það eftir þá miklu umræðu og gagnrýni sem frumvarpið fékk í fyrra hvaða áhrif frumvarpið, verði það að lögum, hafi á þiggjendur fjárhagsaðstoðar eða til að mynda börn þeirra? Var ekki reynt að fara í neina (Forseti hringir.) greiningu á því hvaða umhverfi við gætum verið að fara inn í með lögum sem þessum?