145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:06]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða hér um áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar. Ég man ekki eftir að umræða um þetta hafi farið fram hér í þingsal og þá er kominn tími til.

Nýverið náðist sögulegt samkomulag 195 ríkja á Parísarráðstefnu um aðgerðir í loftslagsmálum. Það vakti athygli að ekkert er minnst á framleiðslu dýraafurða sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna telur að beri ábyrgð á 10–15% af losun allra gróðurhúsalofttegunda, og það er frekar varlega áætlað miðað við margar úttektir sem maður hefur séð. Til dæmis er talið að á heimsvísu losi kjöt- og mjólkurframleiðsla meira en allur samgönguflotinn til samans og við erum mjög mikið með fókusinn á samgöngur og jarðefnaeldsneyti. Það er umhugsunarvert í þessu sambandi að sendinefndir Íslands og annarra ríkisstjórna snertu ekki á þessu málefni sem neinu nemur á Parísarráðstefnunni rétt eins og það skipti ekki sköpun í baráttunni við loftslagsbreytingar. Því er beinlínis haldið fram að það geti orðið erfitt að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar verði meiri en 2°C ef þessi þáttur er ekki tekinn með í reikninginn.

Það er eiginlega þannig í dag að við getum ekki lengur horft fram hjá þeim gríðarlega neikvæðu umhverfisáhrifum sem aukin kjötneysla mannkyns hefur. Staðreyndirnar liggja einfaldlega fyrir. Framleiðslan á kjöti eykur mjög álag á jörðina og viðkvæm vistkerfi, hún er beinlínis ástæða þess að eyðing skóga er víða mikil. Þeir eru ruddir til að auka beitiland fyrir búfénað, það fer líka gríðarlega mikið vatn í kjötframleiðslu og það er víða af skornum skammti, að ekki sé talað um orkunotkunina.

Skýrsla umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2010 staðfestir þetta og við vitum einnig að stór hluti ræktunarlands í heiminum fer beinlínis undir það að rækta fóður fyrir dýr. Í einföldu máli setjum við orku, vatn og landsvæði í að framleiða mat sem við síðan gefum dýrum í stað þess að borða hann sjálf. Sem dæmi er talað um að til að framleiða eitt kíló af nautakjöti þurfi tíu kíló af fóðri og alveg ógrynni af vatni.

Ástæðan fyrir þessari þróun, sem veldur svo miklu álagi á vistkerfi jarðar, er að kjötneysla eykst eftir því sem velmegun veður meiri. Því meiri velmegun því fleiri nautasteikur. Því stærri sem millistéttin er því meira er borðað af kjöti og mjólkurafurðum. Þetta er bara svona og einu sinni gekk það kannski að við borðuðum kjöt eins og okkur lysti en jarðarbúum fjölgar stöðugt og þetta er einfaldlega ekki lengur í boði. Mér finnst við ekki geta leyft okkur að vera viðkvæm og forðast að ræða þessi mál en þetta er samt sem áður furðuviðkæmur málaflokkur. Það er ekki eins og við séum að stilla því þannig upp að gera atlögu að bændum, við þurfum að borða og það munu ekki allir gerast grænmetisætur. Þetta snýst miklu frekar um að minnka kjötneysluna, upplýsa um vandann og svo gerir hver og einn það sem hann vill. Staðan er þannig í dag, í hinum og þessum áskorunum í umhverfismálum, og þessari meðal annars, að við erum að ógna framtíð barna okkar og barnabarna og ef við ætlum að gera það skulum við vera alveg meðvituð um það.

Þá kem ég að skyldu stjórnvalda en mér finnst að þeim beri skylda til að fræða fólk um áhrif kjöt- og mjólkurneyslu á umhverfið og beita aðgerðum til að hvetja til aukinnar neyslu á mat sem hefur minni umhverfisáhrif. Eins og ég segi þá gerir fólk síðan það sem það vill en það er þá að minnsta kosti upplýst. Ég velti líka fyrir mér hvort hér sé kannski sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað. Hvert er kolefnisspor innlendrar framleiðslu eftir fæðutegundum? Það væri alveg gráupplagt að kortleggja það og kannski eru þessar upplýsingar til og ég skora á umhverfisráðherra að skoða þetta mál nánar.

Við borðum sífellt minna af kindakjöti á Íslandi en er það hugsanlega umhverfisvænsta kjötið þegar allt er tekið saman, það má vel vera. Það væri fróðlegt að vita það. Hvert er kolefnisspor nautgripaframleiðslu á Íslandi? Það þætti mér líka fróðlegt að vita. Er nautakjötsframleiðsla á Íslandi umhverfisvænni en annars staðar? Við erum að niðurgreiða landbúnað um marga milljarða á ári, erum við með einhverjum hætti að nýta þennan stuðning þannig að við ýtum undir umhverfisvænni framleiðslu? Nú er tækifæri þar sem verið er að gera búvörusamninga þessa dagana. Mér finnst þetta vekja margar spurningar, mér finnst þetta gríðarlega áhugavert mál og ekki síst mikilvægt. Ég hlakka til að heyra hvað þingmenn munu leggja til málanna og ekki síst hæstv. ráðherra.